Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Háskóli Íslands stendur ekki undir nafni

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
„Það er dapurlegt að Háskóli Íslands treysti sér ekki til þess að reka almennt háskólanám á landsbyggðinni. Aðalástæðan fyrir fækkun í íþróttakennaranámi er lenging námsins úr þremur árum í fimm. Það kallar á endurskipulagningu námsins hvort sem það flyst til Reykjavíkur eða verður áfram á Laugarvatni“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra og fyrsti þingmaður Sunnlendinga.

Háskólaráð Háskóla Íslands ákvað í dag að flytja námsbraut í íþrótta og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Sigurður segir að með þessu standi Háskóli Íslands ekki undir nafni. „Það er sorglegt að 84 ára sögu íþróttakennaranáms á Laugarvatni sé lokið með aðkomu Háskóla Íslands, alls landsins. Mér finnst dapurlegt að háskólinn hafi ekki gefið þeim tækifærum gaum sem eru til þess að efla háskólanámið á Laugarvatni, þrátt fyrir að á það hafi verið bent í skýrslum sem háskólinn sjálfur hefur staðið fyrir.

Tvær brautir fyrir Reykvíkinga

Í greinargerð Háskólaráðs segir að flutningurinn sé vegna fækkunar nemenda, nemendur vilji ekki sækja námið til Laugarvatns. Sigurður Ingi segir flutninginn grafalvarlegt mál fyrir samfélagið á Laugarvatni, og gefur lítið fyrir þau rök að nemendur vilji ekki sækja nám þar. „Það er fyrst og fremst lenging námsins sem veldur fækkun. Það er nú þegar rekin íþróttafræðibraut við Háskólann í Reykjavík. Nú á að reka tvær íþróttafræðibrautir í Reykjavík, en enga úti á landi. Nemendum úti á landi sem hafa sótt í miklum mæli á Laugarvatn verður nú gert að fara til Reykjavíkur eins og öðrum. Þeir búa þá við það að leigja sér miklu dýrara húsnæði heldur en ella.  Ekki búa þeir heima hjá foreldrum sínum“.

„Blekkingaleikur“

Háskólaráð hitti þingmennina Sigurð Inga og Unni Brá Konráðsdóttur og sveitarstjórnarmenn Bláskógabyggðar stuttlega á fundi sínum í dag. Skömmu síðar var fundi slitið og yfirlýsing send út til starfsmanna Háskólans. Velunnarar námsins á Laugarvatni sem Fréttastofa hefur náð sambandi við í dag eru mjög ósáttir við niðurstöðuna. Háskólaráð hefur í tvígang frestað ákvörðun í málinu. Einn viðmælenda Fréttastofu sagði að frestanir háskólaráðs í þessu máli hefðu verið blekkingarleikur einn. Ljóst megi vera að ákvörðunin hafi verið tekin fyrir löngu. 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV