Hasar í Harry Potter heimum

Mynd: WarnerBros / Youtube

Hasar í Harry Potter heimum

04.10.2018 - 08:41
Aðdáendur Harry Potter galdraheimsins geta farið að verða spenntir fyrir komandi tímum. Í vikunni var myndbandi af því sem virtist vera nýr Harry Potter leikur lekið á Reddit.

Margir aðdáendur galdraheimsins hafa lengi beðið eftir almennilegum tölvuleik og þeim gæti orðið að ósk sinni í komandi framtíð.

Reddit notandinn vapethisbro virðist hafa verið valinn í einhverskonar rýnihóp fyrir tölvuleiki þar sem framleiðendur frá skoðanir venjulegs fólks á því sem verið er að þróa. Eitthvað hefur öryggisgæslu verið ábótavant en vapethisbro tókst að smygla símanum sínum með sér og taka upp kynningarmyndband af nýjum Harry Potter leik.

Upplýsingar herma að leikurinn eigi að gerast á 19.öld og spilurum gefist þar tækifæri á að búa til sína eigin persónu og sína eigin sögu. Þú getur kannað allan Hogwartsskóla, forboðna skóginn og Hogsmeade svo eitthvað sé nefnt. 

Mynd með færslu
 Mynd: WarnerBros - RÚV
Skjáskot af myndbandinu sem lak, það hefur nú verið fjarlægt af Warner Bros

Samkvæmt heimildarmönnum er þó líklegast enn að minnsta kosti ár þar til að leikurinn kemur út en þangað til þá geta aðdáendur huggað sig við það að nýjasta kvikmyndin úr smiðju J.K.Rowling og félaga er væntanleg um miðjan nóvember.

Nýjasta stikla myndarinnar kom út í síðustu viku en hún vakti hjá fólki misjöfn viðbrögð. Í stiklunni kemur í ljós að karakter suðurkóresku leikkonunnar Claudiu Kim reynist vera snákurinn Nagini, sem síðar meir verður einskonar gæludýr hins illa Voldemort.

J.K. Rowling hefur verið gagnrýnd fyrir leikaravalið og meðal annars sökuð um kynþáttahatur og fyrir að hafa einungis ráðið Kim í hlutverkið til þess að auka fjölbreytni í sögum sínum, sem oft hafa verið sagðar of hvítar og gagnkynhneigðar. Rowling var hins vegar ekki lengi að svara fyrir sig og útskýra hvernig uppruna hugmyndarinnar að Nagini megi reka til indónesísku þjóðsagnapersónunnar Naga.

Geir Finnsson ræddi Harry Potter í vikulegu innslagi sínu um tölvuleiki, kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Hlustaðu á innslagið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.  

Tengdar fréttir

Mynd með færslu
Kvikmyndir

Ingvar áberandi á plakati Fantastic Beasts 2