Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Harmar framkomuna gagnvart þingforsetanum

19.07.2018 - 13:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og leyfir sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.“ Þetta segir í tilkynningu sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sendi fjölmiðlum í hádeginu. 

Steingrímur segist hafa um nokkurra mánaða skeið undirbúið þingfundinn á Þingvöllum, og rætt undirbúninginn jöfnum höndum við forsætisnefnd og formenn þingflokkanna. „Sjálfsagt þótti frá byrjun, í ljósi tilefnisins, að forseti danska þingsins yrði í sérstöku hlutverki á þessum hátíðarfundi. Danska þingforsetanum var því boðið til landsins sem fulltrúa gagnaðila að fullveldissamningunum,“ segir hann. 

Pia Kjærsgaard sagði sjálf í samtali við TV 2 í Danmörku að gagnrýni íslenskra þingmanna á veru hennar á hátíðarfundinum væri fáránleg og þeim til skammar.