Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Haraldur á blóði drifnu Rófi

Mynd: RÚV / RÚV

Haraldur á blóði drifnu Rófi

14.11.2018 - 09:38

Höfundar

„Mér finnnst mjög mikilvægt í mínum verkum að vera auðskiljanlegur en ekki neytendavænn,“ segir Haraldur Jónsson myndlistarmaður. Á Kjarvalsstöðum stendur yfir sýningin Róf, þar sem ferill hans undanfarin 30 ár er dreginn saman.

Á hverju ári heldur Listasafn Reykjavíkur sýniningu á Kjarvalsstöðum þar sem farið er yfir feril starfandi listamanns. Í ár er röðin komin að Haraldi Jónssyni sem hefur verið að í tæp 30 ár. 

Á mörkum hins venjulega og óvenjulega

„Við vorum með nokkra titla en Róf kom eiginlega af sjálfu sér,“ segir hann um titil sýningarinnar. „Það er náttúrulega litróf og stafróf og þessi upptalning, en það hefur líka þennan blæ, að vera á rófi. Hvenær er maður á rófi? Þegar er sagt: hann er nú dálítið spes. Það er minn vinnustaður, þetta svæði milli hins venjulega og óvenjulega.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krumpað myrkur, eitt verka sem sjá má á sýningunni.

Markús Þór Andrésson er sýningarstjóri. „Haraldur er alltaf í verkum sínum að skoða einhver mörk milli okkar sem manneskja sem umhverfisins. Og hann er alltaf að skoða hvernig við tökum þetta inn, hvernig við skynjum og hvað gerum við við það. 

Eftir Harald liggja á annað hundrað verk en sýningunni er ekki skipt í tímabil heldur fjögur þemu. 

Líkami, skynjun, tilfinningar, tungumál

„Það eru fjórir þættir sem mér finnst kjarna Harald,“ segir Markús. „Það er líkaminn, tilfinningarnar, skynjunin og tungumálið. Það er eitt mengi af verkum sem fjalla bara um líkamann, oft á tíðum um líkamsop og leiðir inn og út úr líkamanum. Svo erum við líka með tilfinningarnar. Tilfinningar eru inn í okkur öllum og á milli okkar og hann reynir að formgera þetta í skúlptúra eða búa til hljóðverk eða teikningar þar sem hann býr til mynd af tilfinningu.  Við það bætist tungumálið sjálft sem viðfangsefni. Það einkennist hjá Haraldi af því þegar við förum inn í tungumál, eins og við förum inn í rými, inn í einhvern nýjan stað.“

Haraldur er ánægður með hvernig til tókst. „Ég persónulega vildi ekki hafa sýningu sem vörutalningu heldur einingu og búa til einhvers konar mengi eða orkusvið. Mér finnst gleðilegt að sjá nýja tengingar myndast milli verka.“ 

Hið endanlega selfie

Eitt verkanna sem segja má að fái nýja merkingu á sýningunni er Blóðnám frá 1998. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Mig langaði að gera verk, eins og er gjarnan er, verk sem væri hið endanlega listaverk. Það er að segja verk sem áhorfendur getur ekki bara staðið fyrir framan og spáð og spekúlerað heldur þyrfti að fara inn í verkið. Læknir myndi í raun og veru draga blóð úr áhorfandanum og verkið í fara í bókstaflegum skilningi inn í hann. Síðan væri blóðið dregið úr viðkomandi og afhent honum. Þetta er kannski hið endanlega selfie.“  

Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Myndlist

Hugvíkkandi og hnyttin myndlist

Menningarefni

Ástir trölla, rappari í sjálfskoðun og Róf

Myndlist

Leituðu innblásturs á berklahæli

Myndlist

Því meira flækjustig – því skemmtilegra