Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hanna Birna líklega ekki fyrir þingnefnd

23.11.2014 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Útlit er fyrir að Hanna Birna Kristjánsdóttir verði ekki kölluð fyrir þingnefnd til að svara fyrir lekamálið, vegna þess að hún hefur sagt af sér embætti.

Hanna Birna ber ábyrgð á innanríkisráðuneytinu þangað til eftirmaður hennar hefur verið skipaður, sem gæti gerst á allra næstu dögum.

Átti að mæta á fund í beinni útsendingu
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ætlaði að fá umboðsmann Alþingis, og Hönnu Birnu á sinn fund þegar álit umboðsmanns um samskipti hennar og fyrrverandi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu lægi fyrir, en búist er við að það verði í þessari viku. Fundurinn átti að vera opinn og sýndur í sjónvarpi.

Fréttastofa hefur rætt við sérfræðinga í lögum sem telja að nefndin geti kallað Hönnu Birnu fyrir þótt hún hafi sagt af sér. Dæmi um þetta sé að Björgvin G. Sigurðsson var kallaður fyrir rannsóknarnefnd Alþingis eftir að hann sagði af sér. Rannsóknarnefndin hafi reyndar haft sérlega víðtækar heimildir en hvað sem því líður ætti að vera hægt að kalla Hönnu Birnu fyrir almenna þingnefnd sem fyrrverandi ráðherra, segja lögfræðingar.

Breytt staða eftir afsögn
Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir að staðið hafi til að kalla Hönnu Birnu fyrir nefndina sem ráðherra, til að svara fyrir orð sín og gjörðir. Þegar hún hafi sagt af sér ráðherraembætti, og hafi auk þess horfið af þingi tímabundið, sé staðan breytt. Brynjar Níelsson, varaformaður nefndarinnar, segir óþarft að kalla hana fyrir nefndina, þar sem hún hefur sagt af sér. Ögmundur segir að nefndin muni halda sig við þau áform að fara yfir niðurstöðu umboðsmanns, en svo verði metið hvernig niðurstaðan verður meðhöndluð

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að ábyrgð ráðherra sé tvenns konar, pólitísk og lagaleg. Eftirlitshlutverk þingnefnda snúi að pólitísku ábyrgðinni, en hana hafi Hanna Birna þegar axlað gagnvart þinginu með því að segja af sér. Ráðherrar geti eftir atvikum þurft að svara fyrir lagalega ábyrgð hjá öðrum stjórnvöldum, eins og lögreglu eða ríkissaksóknara.

Axlar pólitíska ábyrgð
Sérfræðingar sem fréttastofa hefur rætt við virðast sammála um að Hanna Birna hafi með afsögn sinni axlað sína pólitísku ábyrgð á lekamálinu, þótt sjálf segi hún að afsögnin sé miklu frekar persónuleg en pólitísk. Miðað við samtöl sem fréttastofa hefur átt við þá sem þekkja til málsins í dag, er ekki útlit fyrir að hún komi fyrir nefndina að óbreyttu. Hvað gerist ef umboðsmaður skilar áliti sínu áður en Hanna Birna verður formlega leyst undan skyldum sínum, á ríkisráðsfundi á Bessastöðum, er hins vegar alls óvíst. Framhaldið kann að velta á hversu fljótur Bjarni Benediktsson verður að velja eftirmann Hönnu Birnu.