Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hanna Birna hættir á Alþingi

07.06.2016 - 15:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður og fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi innanríkisráðherra, hefur ákveðið að hætta á Alþingi og ætlar ekki að gefa kost á sér í næstu þingkosningum. Hanna Birna tilkynnti flokkssystkinum sínum um ákvörðun sína í dag.

Hanna Birna hyggst sitja á þingi fram að næstu Alþingiskosningum, en lesa má tilkynningu hennar til Sjálfstæðismanna í heild sinni hér að neðan:

„Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn er að hefja undirbúning fyrir komandi alþingiskosningar, vil ég greina ykkur frá þeirri ákvörðun minni að gefa ekki kost á mér í þeim kosningum.

Ástæðan er einföld; mig langar að leita nýrra áskorana og nú er einfaldlega komið að þeim tímamótum í mínu lífi að ég tel rétt að nýta reynslu mina, orku og starfskrafta annars staðar en á vettvangi stjórnmálanna.

En þó ástæðan sé einföld var endanleg ákvörðun það ekki.  Frá því ég man eftir mér hef ég haft mikinn áhuga á stjórnmálum og hef notið þess að vinna með ykkur og fyrir ykkur í þágu hugsjóna okkar í Sjálfstæðisflokknum.  Ég er innilega þakklát fyrir þann mikla stuðning sem ég hef ítrekað notið meðal ykkar, stolt af þeim fjölbreyttu verkefnum sem þið hafið treyst mér fyrir og ánægð með þann árangur sem við höfum sameiginlega náð.

En þó að þessi ákvörðun hafi verið tekin þá kveð ég ekki alveg strax.  Ég mun klára það tímabil sem ég var kjörin til, fylgjast með kosningabaráttunni næstu mánuði úr aðeins meiri fjarlægð en oft áður og óska Sjálfstæðisflokknum góðs gengis í þeim mikilvægu verkefnum sem framundan eru.“

Tíu þingmenn að hætta

Hanna Birna er tíundi þingmaðurinn til að tilkynna um brotthvarf sitt af þingi. Frosti Sigurjónsson, Páll Jóhann Pálsson og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hverfa úr þingflokki Framsóknarflokksins fyrir næstu kosningar, og Einar K. Guðfinsson, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis, úr röðum Sjálfstæðismanna. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Vinstri grænna, ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingmennsku og ráðherrarnir fyrrverandi Katrín Júlíusdóttir og Kristján L. Möller úr þingflokki Samfylkingarinnar ekki heldur. Þá hafa þingmenn Bjartrar framtíðar, Róbert Marshall og Brynhildur Pétursdóttir, ákveðið að gefa ekki kost á sér fyrir næstu þingkosningar.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, tilkynnti nýverið að hún ætli ekki að gefa kost á sér í næsta prófkjöri flokksins. Ekki hefur fengist staðfest hvort hún ætli þar með að hætta í stjórnmálum, eða róa á ný mið með öðrum stjórnmálaflokki.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV