Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hanna Birna fagnar ákvörðun flugvirkja

19.06.2014 - 00:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugvirkjafélag Íslands fyrir hönd flugvirkja starfandi hjá Icelandair hefur aflýst boðuðu verkfalli á morgun. Innanríkisráðherra lagði til á Alþingi nú á tólfta tímanum að frumvarp hennar um frestun verkfalls verði ekki afgreitt. Fundum Alþingis hefur verið frestað.

Eftir að annarri umræðu um frumvarp innanríkisráðherra lauk á ellefta tímanum var fundi ítrekað frestað og mikil reikistefna virtist vera í þinghúsinu um framhald málsins eftir að ákvörðun flugvirkja fór að spyrjast út.

Flugvirkjar segja að þeim hugnist ekki að fá á sig lög og að ekki sé tekið tillit til þeirra sjónarmiða á Alþingi. Því muni samningaviðræður hjá ríkissáttasemjara halda áfram. Sáttasemjari muni boða til næsta fundar. Innanríkisráðherra las upp yfirlýsingu flugvirkja og lagði um leið til að atkvæðagreiðslu um frumvarp hennar um frestun verkfallsaðgerða flugvirkja yrði frestað og að málið verði ekki afgreitt. Á meðan fái samningsaðilar tíma til að ná samningum. 

Hanna Birna fagnar niðurstöðunni og segist vona innilega að það takist samningar án þess að Alþingi þurfi að beita sér í því máli. Þegar Hanna Birna lauk máli mælti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Forsætisráðherra fyrir tillögu um frestun á fundum Alþingis til 9. september.