Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hanna Birna ætlar að hætta í borgarstjórn

Mynd með færslu
 Mynd:
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, segir þróun á fylgi flokksins í borginni svipað og það hefur verið undanfarna mánuði. Hún ætlar að hætta í borgarstjórn og býst við að næsti maður á lista verði oddviti Sjálfstæðismanna.

Sjálfstæðisflokkurinn og Besti flokkurinn njóta jafnmikils fylgis meðal borgarbúa, hvor um sig fær 32% í nýrri könnun Capacents Gallups. Besti flokkurinn hefur bætt við sig 14 prósentustigum  frá könnun sem gerð var í september en Sjálfstæðisflokkurinn tapað fylgi, í haust naut hann hylli um 42 prósenta kjósenda.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, segir: „Þessi þróun í fylgi Sjálfstæðisflokksins virðist mjög svipuð og sú þróun við höfum verið að sjá í fylgi á undanförnum mánðuðum. Við erum með jafnmarga borgarfulltrúa og við höfum verið með. Auðvitað er það verkefnið að koma okkur hærra og ég er sannfærð um að það takist fyrir kosningarnar eftir ár". 

Hanna Birna ætlar að hætta í borgarstjórn þegar hún sest á þing, í síðasta lagi eftir sumarleyfi borgarastjórnar. En hver fer þá fyrir sjálfstæðimönnum í borginni. 

„Borgarstjórnarflokkurinn mun ákveða það á næstu dögum eða vikum og það hefur verið hefð fyrir því að það sé maður númer tvö og mér finnst ekki líklegt að það breytist núna", segir Hanna Birna. 

Maður númer tvö er Júlíus Vífill Ingvarsson.