„Hann potar skotunum stundum ofan í“

Mynd:  / 

„Hann potar skotunum stundum ofan í“

02.12.2017 - 13:48

Höfundar

Árið 1984 mættust lið Maryland og North Carolina í bandaríska háskólaboltanum í körfubolta. Í liði North Carolina var Michael nokkur Jordan, en hann var enginn Michael Jordan þetta kvöld. Len Bias í liði Maryland, var Michael Jordan þetta kvöld. Hann var bestur þetta kvöld; það var Len Bias sem steig niður til jarðar eftir að hafa troðið boltanum aftur fyrir sig, eins og Jesús. Ekki í fyrsta skiptið, en í eitt af þeim síðustu.

Hugmyndin um Len Bias 

Kannski hefur þú aldrei heyrt um Len Bias, en þú hefur oft heyrt um Michael Jordan - sem er óumdeildanlega sá besti sem hefur nokkurn tímann spilað körfubolta. En Len Bias var víst líka alveg djöfulli góður. Svo góður, að hann lét Michael Jordan líta illa út. Svo góður að menn spáðu því að hann yrði betri leikmaður en sjálfur Jordan. Svo góður að Boston Celtics völdu hann sem annan valrétt í nýliðavali NBA deildarinnar, á þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. Júní árið 1986. En á kvennafrídeginum, tveimur dögum síðar, var Len Bias ekki lengur til. Svo var hann settur ofan í kistu, og ofan í jörðina. Aldrei framar hélt hann á körfubolta. Aldrei framar skyldi hann stíga niður til jarðar eins og Kristur. Aldrei framar skyldi hann skyggja á Michael Jordan.

útför
 Mynd: ESPN
Vinir og vandamenn Bias fylgja honum til grafar.

Og Len Bias dó en minningin lifir. Og ekki bara minningin, heldur hugmyndin um Len Bias. Hugmynd um þetta hvað ef, hvað ef, hvað ef? Um einhvern sem hefði getað fært okkur heiminn og glatt okkur svo miklu meira en hann gerði. Um einhverja skáldsögu sem var aldrei skrifuð en hefði fært höfundi sínum Nóbelsverðlaunin. Og hún hefði alveg bókað gert það, í hugum okkar, er það ekki annars?

Þegar fólk deyr í blóma lífsins, eru það kannski eðlileg viðbrögð okkar sem eftir lifa að geta í eyðurnar. Og þegar íþróttamenn deyja, förum við að geta í þessar eyður líka. Kannski af því að við teljum að þeir tilheyri okkur á einhvern hátt? Og við eigum eitthvað í þeim. Við veltum því fyrir okkur hvernig íþróttamaður hann eða hún hefði orðið. Hversu langt þau hefðu náð - og líklega ná þau alltaf ansi langt í hausnum á okkur.

16 ára undrabarn sem átti framtíðina fyrir sér 

Nú líður að lokum þáttaraðarinnar Markmannshanskarnir hans Alberts Camus, og því kannski ekki úr vegi að velta eilítið vöngum yfir endalokunum, sjálfum dauðanum — og að sjálfsögðu í tengslum við íþróttir og íþróttamanninn. Í sjöunda þætti verður meðal annars rætt við Loga Gunnarsson, landsliðsmann í körfubolta, um vin hans Örlyg Sturluson, sem var líka landsliðsmaður í körfubolta.

„Hann var svo rosalega kröftugur og sterkur. Á meðan ég var að spila útí á móti á móti strákum var hann að stjórna fullorðnum karlmönnum hérna heima. Hann var byggður fyrir körfubolta," segir Logi.

Heimildarmyndin Ölli eftir Garðar Örn Arnarson fjallar um ævi þessa hæfileikaríka körfuboltamanns.

Ólíkt Len Bias, var Örlygur ekki að fikta við fíkniefni. Hann lenti í hörmulegu slysi og lést í ársbyrjun 2000, í blóma lífins. Við hin getum í eyðurnar um hvað hefði orðið, hvað hefði geta gerst og hversu góður Örlygur hefði getað orðið. Það er stutt á milli feigs og ófeigs, og besti vinur hans Logi er ekki í nokkrum vafa um að sú saga sem Örlygur fékk aldrei tækifæri til þess að skrifa, hefði orðið eins sú stærsta í íslenskri íþróttasögu.

„Ég held það. Af því hann var kominn inn í íslenska landsliðið svona ungur, og búinn að dóminera úrvalsdeildina tvisvar. 16 ára fyrst og svo rúmur ári seinna. Eftir að hann kom heim frá Bandaríkjunum var hann kominn á annað stig. Þannig já, ég held að hann sé stærsta hvað ef íslenskrar íþróttasögu," segir Logi. 

Getur íþróttamaðurinn dáið á vellinum en lifað áfram sem manneskja? 

Len Bias og örlög hans minna okkur þó líka á annað atriði, sem rætt hefur verið um í þessum þáttum, að íþróttamenn hafa sína djöfla að draga líkt og annað fólk. Og það getur, eins og dæmin sýna og sanna, leitt til dauða. Leitt til sjálfsvíga. Rannsóknir hafa sýnt að íþróttamenn eru ekki með betra geðheilbrigði en við hin, öfugt við það sem við kannski héldum. Heilbrigð sál í hraustum líkama og allt það.

Fjölmargir atvinnuíþróttamenn hafa fallið fyrir eigin hendi eftir að ferlinum lýkur. Hafrún Kristjánsdóttir, íþróttasálfræðingur, segir því ýmislegt skýra andleg veikindi íþróttamanna; þeir búi við líkamlegt álag, mikla samkeppni, og miklar kröfur séu gerðar til þeirra. Þeir séu meðhöndlaðir eins og hver önnur vara á markaði, og þá geti endurtekin höfuðhögg leitt til þunglyndis.

„Líklegasta skýringin á því að þeir verða þunglyndir er að þú skilgreinir þig sem íþróttamann, það er ídentitíið þitt. Svo hættir það og það myndast algjört tómarúm. Þú hefur ekkert annað. Enga menntun. Þú ert ekki lengur það sem þú skilgreinir þig sem, og ert fljótur að gleymast. Tilgangur lífsins, hann er ekki lengur þarna," segir Hafrún. 

Mynd með færslu
 Mynd: LE - Liverpool Echo
Í þættinum er fjallað um knattspyrnumanninn Gary Speed, sem tók eigið líf eftir að ferlinum lauk.

„Við, fólkið sem horfum á íþróttamennina í sjónvarpinu  höfum tilhneigingu til að setja íþróttafólk upp á stall og hugsa: þetta fólk getur ekki átt við vandamál að stríða.” 

Og kannski einmitt þessvegna  vekur það sérstaka eftirtekt hjá okkur þegar fyrrum íþróttamenn taka eigið líf, og annars konar eftirtekt en þegar þeir deyja á blómaskeiði ferilsins. Vegna þess að þarna á sér stað dauði sem er ekki áþreifanlegur - dauði íþróttamannsins en ekki manneskjurnnar. Þú deyrð sem íþróttamaður, en reynir að lifa áfram sem manneskja. Og það líf er erfiðara en við höldum. 

„Hann fékk ekki það sem ég fékk" 

En hvað er einn körfuboltamaður í samanburði við manneskju? Hvað er einn leikstjórnandi við hliðina á syni, bróður og vini? Þegar öllu er á botninn hvolft er það bara hugmyndin um íþróttamanninn sem er tekinn frá okkur, eigingjörnu grúppíunum, þeir deyja. Við erum ofdekruð af hæfileikum þeirra og snilli. En manneskjan er tekin frá þeim sem stóðu þeim næst, þeim sem í rauninni skeytti engu um hvort þau gætu dripplað bolta eða skotið á mark. 

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV
Logi í leik með Njarðvík. Hann leiðir oft hugann að því hvernig það væri að spila með Örlygi í dag.

Því hefði ekki aðeins ferill Loga Gunnarssonar orðið öðruvísi ef Örlygur hefði fengið að lifa, heldur allt hans líf.

„Ég hugsa reyndar mikið um það, eftir að ég varð eldri, að ég væri með honum og krökkunum hans og við værum að grilla saman og hafa það gott. Ég hugsa meira um þetta núna. Ég svekki mig oft á því að hann fékk ekki það sem ég fékk núna, að eignast börn og sjá krakkana sína alast upp og gera það saman í Njarðvíkunum. Að við værum saman með krakkana okkar að leika. Þetta er það sem ég hugsa um núna," segir Logi Gunnarson um besta vin sinn, Örlyg Sturluson, sem kvaddi allt of snemma.

Og inni á vellinum er Örlygur líka með Loga. „Hann er þarna í kringum mann þegar maður er að spila. Það er einhver skot, sem hefðu ekki farið ofan í, sem hann potar ofan í."

Hafa íþróttamenn fullkomnað listina að deyja? 

Kannski mætti draga þá ályktun að íþróttamenn sem deyja hafi sannarlega fullkomnað þá list að deyja - að þeir séu betri í því en við hin -  rétt eins og inni á vellinum, þar sem þeir voru fremstir meðal jafningja. Þeir losni frá oki heimsins og skilji okkur eftir með ímyndunaraflið eitt að vopni. Fangi forsíður blaðanna í síðasta skipti.

Kannski hangir Len Bias því enn þá á hringnum í Maryland, eins og Kristur á krossinum - frosinn í minningunni. Og myndin af honum er skýrari en aldrei fyrr. Þar stendur hann, í dýrðarljómanum, frosinn um alla eilífð - á meðan Michael Jordan er búinn að skilja við konuna sína og bæta á sig 20 kílóum.

En það er ekki rétt.

Dauði íþróttamanna er jafn óvelkominn og ósanngjarn, jafn hræðilega sorglegur og átakanlegur eins og allra annarra. Og að halda því fram að íþróttamaður geri sig ódauðlegan með því að deyja á hátindi ferilsins, er heimskulegt, ómannúðlegt og í besta falli óviðeigandi.

Og þegar við heyrum af dauða þeirra, hvernig sem á honum stendur, erum við líklega föst í einhverju ídealí; vegna þess að í gegnum íþróttamanninn fáum við tækifæri til þess að vera í ævintýraheimi - og í eigingirni okkar gleymum við því að þeir eru fyrst og fremst manneskjur - svo eru þeir íþróttamenn. 

Markmannshanskarnir hans Alberts Camus eru á dagskrá á laugardögum á Rás 1 í vetur. Í þáttunum er fjallað um aðrar og óþekktari hliðar íþróttanna. Tæknimaður þáttarins var Magnús Þorsteinn Magnússon, lesari er Vera Illugadóttir. Guðmundur Björn Þorbjörnsson er umsjónarmaður.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Af hverju spila hommar ekki fótbolta?

Menningarefni

Féll á þorrablóti Íslendinga í London

Bókmenntir

Um fagurfræði kappleikjalýsinga

Menningarefni

„Ég varð að leyfa efnilega Pavel að deyja"