Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Haniye verður vísað úr landi næsta fimmtudag

11.09.2017 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson
Haniye Maleki sem er ellefu ára, og fötluðum afgönskum föður hennar verður vísað úr landi næstkomandi fimmtudag klukkan 11:30. Feðginin fengu þessar fréttir á fundi með lögreglunni í húsakynnum Útlendingastofnunar í morgun og eru að sögn vinar þeirra í miklu áfalli.

Mál feðginanna Haniye og Abrahim Maleki hefur farið hátt í samfélagsumræðunni síðustu daga. Stúlkan er ríkisfangslaus en hún fæddist sem flóttamaður í Íran. Hún sýnir alvarleg einkenni áfallastreituröskunar og geðlægðar samkvæmt sálfræðimati. Faðir hennar er fatlaður eftir fótbrot.

Útlendingastofnun hefur úrskurðað að þau verði send aftur til Þýskalands en því hafði ekki verið slegið föstu hvenær það yrði. Ákvörðuninni var mótmælt á fjölmennum fundi á Austurvelli um helgina. Samfylkingin hyggst leggja fram frumvarp um að fjölskyldan fái ríkisborgararétt og þrír þingmenn Viðreisnar segjast mótmæla brottvísuninni.

Nú hefur feðginunum verið tilkynnt að þau verði send úr landi á fimmtudag. Guðmundur Karl Karlsson, vinur feðginanna, fór með Abrahim á fund með fulltrúum lögreglu í húsakynnum Útlendingastofnunar í morgun. Þar kom fram að feðginin fari í lögreglufylgd út á flugvöll. Þess er krafist að þau haldi sig heima fyrir á miðvikudag og fimmtudag fyrir brottvísun. Þau verða ekki sett í varðhald, en að sögn Guðmundar kom fram að það gæti þó farið svo ef tilefni yrði til.

„Það er alveg skelfilega kalt að sitja þarna og hlusta á þetta. Maður bara skalf af reiði yfir því að stjórnvöld séu að framkvæma þetta þrátt fyrir það sem er í gangi í þjóðfélaginu og Alþingi og í umræðunni, að það sé hægt að gera svona,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu.

„Þau eru bæði alveg miður sín. Þau voru byrjuð að leyfa sér að vona eftir umræðuna síðustu daga. Svo fer Abrahim á svona fund og hann hreinlega vissi ekki hvað sneri upp eða niður. Hann hefur fengið svo mörg misvísandi skilaboð síðustu daga,“ segir Guðmundur.