Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Handtekinn í Moskvu en náði Argentínu-leiknum

epa06812963 Supporters of Iceland during the FIFA World Cup 2018 group D preliminary round soccer match between Argentina and Iceland in Moscow, Russia, 16 June 2018.
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Handtekinn í Moskvu en náði Argentínu-leiknum

20.06.2018 - 10:49
Heimsmeistaramótið í Rússlandi hefur gengið stóráfallalaust hjá þeim fimm íslensku lögreglumönnum sem staddir eru á mótinu á vegum embætti ríkislögreglustjóra. Einn Íslendingur var þó handtekinn í Mosvku fyrir Argentínuleikinn eftir að hafa lent í stympingum. Honum var sleppt að loknum skýrslutökum og náði leiknum.

„Þetta hefur eiginlega allt gengið eins og í sögu,“ segir Tjörvi Einarsson, lögreglumaður hjá Ríkislögreglustjóra, sem staddur er í Moskvu.  Annað verkefni var þegar einhverjum Íslendingum þóttu ferðafélagarnir sofa helst til of lengi eftir Argentínuleikinn og óttuðust að þeir myndu missa af fluginu heim til Íslands. „En það leystist farsællega.“ 

Eins og á EM fyrir tveimur árum sendir embættið lögreglumenn á HM í Rússlandi. Þá var reyndar gagnrýnt að aðeins karlar voru sendir og þáverandi innanríkisráðherra sagði á Alþingi að það hefði komið sér „fullkomlega á óvart.“ 

Annað er uppi á teningnum núna. Í fimm manna hópnum eru þrjár konur og tveir karlar. „Þetta var fullkomlega meðvitað  og hefur reyndar vakið mikla athygli meðal kollega okkar hérna úti. Þeir segja það öfundsvert hvað okkur tókst að setja saman flottan hóp og þeim finnst að svona eigi þetta að vera.“ 

Tveir af íslensku lögreglumönnunum hafa bækistöðvar í alþjóðlegri stjórnstöð í Moskvu þar sem koma saman fulltrúar frá öllum þátttökuþjóðum. Þeir deila með sér upplýsingum til að koma í veg fyrir að svokallaðar „boltabullur“ nái að valda usla „og eyðileggja skemmtunina fyrir hinum sem vilja bara hafa gaman,“ segir Tjörvi.

Hinir þrír lögreglumennirnir fara síðan á milli þeirra staða þar sem íslenska liðið spilar og eru lögreglunni í viðkomandi borgum innan handar ef eitthvað kemur upp á. „Ef Íslendingar væru í vandræðum geta þeir gripið inn í og komið í veg fyrir að það verði að einhverju stærra.“

Þremenningarnir fá býsna erfitt verkefni á föstudag þegar þeir fylgja Íslendingum til Volgograd þar sem flugnager liggur yfir borginni. Til að bæta gráu ofan á svart er spáð steikjandi hita sem eru slæmar fréttir fyrir löggurnar enda í svörtum búningum. „En við erum með góðar birgðir af flugnafælum,“ segir Tjörvi.