Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Handtekinn eftir árás á mann í hjólastól

27.12.2018 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið handtekinn grunaður um að hafa ráðist á fatlaðan mann í íbúð í Hátúni í morgun. Þetta staðfestir Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Enn leitar lögregla að karlmanni og konu sem voru með manninum að verki.

Fólkið bankaði á glugga hjá manninum og hann fór út á pall til þess að opna svalardyr til að gá hver væri að berja dyra. „Um leið og hann er búinn að opna hurðina koma tveir aðilar hlaupandi og velta stólnum við þannig að maðurinn liggur eftir á pallinum fyrir utan íbúð sína. Þrír aðilar hlaupa inn í íbúðina og stela þar tölvu og fleiri verðmætum á meðan sá í hjólastólnum lá eftir,“ sagði Guðmundur Páll við RÚV í dag.

Guðmundur Páll segir að maðurinn, sem notar hjólastól til að komast ferða sinna, hafi sem betur fer ekki hlotið alvarlega áverka. Árásin hafi valdið honum sjokki en hann sé að jafna sig. Hann er á sextugsaldri.