Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Handtekin fyrir að selja ólöglegt hrossakjöt

16.07.2017 - 17:25
Erlent · Europol · Spánn · Evrópa
epa06090990 A handout photo made available on 16 July 2017 by Europol (European Union Agency for Law Enforcement Cooperation) showing Spanish and Europol police officers visiting horses at an unidentified location. Europol report on 16 July 2017 that the
 Mynd: EPA - EUROPOL
Komist hefur upp um viðamikla sölu á hrossakjöti sem var bannað að nota til manneldis, er haft eftir evrópsku lögreglunni Europol á vef BBC í dag. Lögregla á Spáni stóð fyrir 65 handtökum í kringum söluna, ýmist fyrir dýraníð, peningaþvætti, markaðssvik eða fjárglæfra af öðru tagi. Hrossum frá Portúgal og Spáni var slátrað og kjöt þeirra sett á markað en það var ekki talið hæfa til matar. Nánari upplýsingar um hvers konar dýraníð fór fram liggja ekki fyrir.

Greining á kjötinu hefur leitt í ljós að það var einkum ætlað til sölu utan Spánar, þar sem álíka sýni fundust til sölu utan landsins.

Talið er að starfseminni hafi verið stýrt af hollenskum ríkisborgara sem handtekinn var í Belgíu. Hann hefur áður komið við sögu þegar ólöglegt hrossakjöt er annars vegar, þegar hrossakjöt var markaðssett sem nautakjöt í fjölmörgum verslunum á Bretlandi og Írlandi. Var það meðal annars selt sem hamborgarakjöt í versluninni Tesco. Matvælaeftirlit á Írlandi komst að þessu í janúar 2013. Málið í dag er hinsvegar frekar talið snúast um matvælaöryggi en svik við neytendur.

Sjá frétt BBC hér.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV