Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Handtakan í Polar Nanoq „fullkomlega lögmæt“

08.10.2017 - 16:17
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Handtaka Thomasar Möllers Olsens um borð í togaranum Polar Nanoq var fullkomlega lögmæt. Þetta segir fyrrverandi saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Enginn vafi leiki því á lögmæti handtökunnar, líkt og sérfræðingur í þjóðarrétti hafi haldið fram.

Togarinn Polar Nanoq var um 90 sjómílur suðvestur af landinu þegar lögreglumenn fóru um borð í skipið og handtóku Thomas Möller Olsen, sem síðar var dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur og fyrir tilraun til að smygla yfir 23 kílóum af kannabisefnum.

Bjarni Már Magnússon, dósent við lagadeild HR og sérfræðingur í þjóðarrétti, sagðist í fréttum á föstudag telja vafa leika á lögmæti handtökunnar. Farið hafi verið um borð í skipið utan landhelginnar, innan hinnar svokölluðu efnahagslögsögu. Íslensk lögsaga hafi ekki verið til staðar og samþykki fánaríkis hafi skort. Héraðsdómur hefði átt að taka afstöðu til þessa þátta, en hafi ekki gert.

Jón H. B. Snorrason var aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar handtakan fór fram, og hafði yfirumsjón með henni. Hann er nú saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara.

„Á þessari aðgerð eru engir hnökrar sem geta leitt til afleiðinga vegna dómsmeðferðar. Enda sýndi það sig í héraðsdóminum,“ segir Jón. „Það er nú svo að yfirvöldum er viðurkenndur og ætlaður ákveðinn réttur í kjölfar og vegna brota sem framin eru í refsilögsögu landa, réttur til þess að grípa til aðgerða og til að koma þeim sem taldir eru viðriðnir málið fyrir dóm til að láta fjalla um málið þar. Það var í þessu tilviki. Þarna lá fyrir samþykki fánaríkisins, grænlenskra lögregluyfirvalda, fyrir því að taka manninn þarna. Danskt verðskip og herskip var í námunda og fylgdi togaranum með íslenska lögreglumenn innanborðs þannig að þetta gekk allt í samræmi við þennan samning við fánaríkið.“

Hafa áður handtekið menn utan lögsögunnar

Jón segir þetta ekki vera í fyrsta skipti sem lögregla ræðst í sambærilega aðgerð utan lögsögunnar.

„Í öðru skútumálinu sem kallað var sem kom upp fyrir austan fyrir innan við 10 árum hagaði þannig til að fíkniefni voru flutt með skútu frá Danmörku til Íslands. Áður en skútan kom inn í íslenska landhelgi var farið á móti henni á gúmmíbátum út fyrir landhelgina. Og efnin voru sótt og flutt í land þaðan. Þannig að þeir sem voru á skútunni voru að sinna sínum þætti í þessu skipulagða broti. Þeir komu aldrei inn í landhelgi. Við handtókum þá á skútunni þegar hún var á milli Íslands og Færeyja. Dómstólar fjölluðu um þá aðgerð og heimild okkar til þess og það þótti engum vafa undirorpið að þarna hefðu íslensk yfirvöld haft heimild til þess að framkvæma þessa þvingunaraðgerð til þess að koma höndum yfir þessa menn. Og þeir voru dæmdir hér.“

Þú talar um að það hafi legið fyrir heimild frá grænlenskum yfirvöldum, var hún lögð fram við rekstur málsins fyrir héraðsdómi?

„Já, það liggja fyrir greinargerðir um þetta í málinu og fyrir dómi og það var fjallað um þessa aðgerð og þessa framkvæmd fyrir dóminum.“

Þurftu engin álit þjóðréttarfræðinga

Bjarni benti á það í fréttum á föstudaginn að á sjöunda áratugnum hafi Hæstiréttur í þrígang ógilt dóma í fiskveiðibrotum þar sem ólögmæt handtaka hafi ekki verið í samræmi við alþjóðalög. Jón segist ekki hafa áhyggjur af þessum fordæmum, verði málinu áfrýjað.

„Nei, þessi dæmi sem þarna eru nefnd eru 30-40 ára gömul og aðstæður og atvik þar eru ólík þessu. Þar var um að ræða brot í efnahagslögsögunni og spurning um sönnun þeirra og síðan framkvæmd á því að ná til þeirra sem taldir voru hafa framið brot. Það eru alveg eðlisólík mál, og atvik og aðstæður.“

Þannig að þið eruð handvissir um að þessi handtaka um borð í Polar Nanoq hafi verið lögmæt?

„Fullkomlega lögmæt. Og niðurstaða dóms héraðsdóms var sú að það hafi ekki verið neinir hnökrar á þessu máli sem hefðu áhrif á dóminn að neinu leyti. Það getur gerst oft í málum að einhver framkvæmd þvingunarráðstafana fer út fyrir meðalhóf og það getur leitt til bótaskyldu fyrir ríkið. Það hefur engin áhrif á sönnunarmat, sönnunarfærslu og niðurstöðu dóms.“

Áður en þið réðust í þessa framkvæmd, leituðuð þið álits þjóðréttarfræðinga eða hafréttarfræðinga?

„Nei, nei. Við erum alveg einfærir um þetta sjálfir,“ segir Jón.