Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Handalögmál og mótmæli á Hofstrandarsandi

30.06.2014 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Hofstrandarsandur fyrir botni Borgarfjarðar eystra þolir ekki ágang ferðamanna að mati landeiganda sem hefur haft hann lokaðan í 10 ár. Ferðamenn hafa ásælst skrautsteina sem þar finnast og nú knýja heimamenn á um að sandurinn verði opnaður.

Mótmæli boðuð

Nokkrir íbúar á Borgarfirði eystra hugðust mótmæla lokun Hofstrandarsands um helgina en afboðuðu mótmælin. Óttar Már Kárason er einn þeirra sem boðuðu til friðsamlegrar mótmælagöngu um sandinn. Mótmælin voru boðuð aðfararnótt sunnudags og áttu að fara fram klukkan 18 á sunnudagskvöld. Óttar segir að boðað verði til nýrrar göngu síðar með lengri fyrirvara. Heimamenn eru ósáttir við landeiganda sem lokaði sandinum fyrir um tíu árum og bannar þar alla umferð. Ferðamenn og aðrir sem þangað hafa lagt leið sína hafa stundum verið reknir á brott.

Þjófavarnagirðing

Það er Ingibjörn Kristinsson sem hefur búið á Hofströnd í 60 ár og lokar sandinum fyrir umferð.  Þar hefur Landgræðslan komið að uppgræðslu og hann vill einnig vernda varp sem hann hefur nýtt sjálfur. Að stórum hluta snýst lokunin um skrautsteina sem finnast á sandinum en eins og margir vita er Borgarfjörður eystri ríkur af ýmsum fögrum steindum.  Ingibjörn segir að menn hafi komið gagngert til að tína skrautsteina í stórum stíl. „Þetta er þjófavarnargirðing því það var öllu stolið af sandinum,“ segir Ingibjörn í samtali við fréttastofu. 

Lenti í átökum við froskmann

Í fyrrasumar tók steininn úr þegar erlendur maður fór um sandinn í kafarabúningi og var þar heilan dag að safna steinum. Þegar Ingibjörn fór að banna manninum steinatökuna lenti hann í átökum. „Hann var í froskmannsbúningi til að kafa eftir grjótinu og var bíða eftir að það fjaraði,“ segir Ingibjörn.  Maðurinn neitaði að skila grjótinu og brást hinn versti við þegar Ingibjörn hótaði að taka það af honum.  „Hann setti hnefann í mig og stjakað mér burtu,“ segir hann. Maðurinn hafi farið um 6-800 metra langt svæði. „Hann hætti þegar hann gat ekki borið meira. Ég er orðinn handlama og fer ekkert að taka á mönnum. Stend ekki í handalögmálum þó þess hefði oft þurft,“ segir Ingibjörn og viðurkennir að auðvita hefði hann átt að hringja á lögregluna.

Varpið „sópað“

Í vor lenti hann svo í orðaskaki við mann sem tók egg úr varpinu á sandinum og þar í kring. „Varpið var sópað í vor og sá sem það gerði svaraði því til að hann ætlaði að tína eins og honum sýndist og ég skildi ekkert vera að rífa kjaft,“ segir Ingibjörn. Hann segir að menn hafi einnig komið til að taka rekavið, kúlur og belgi sem hafi rekið í fjöruna. Þegar hann leyfði efnistöku á sandinum hafi komið í ljós að ekki hafi verið haldið utan um það magn sem tekið var. Því hafi hann bannað efnistöku nema ef menn bráðvanti efni. Þá hafi hann orðið fyrir talsverðu ónæði af ferðamönnum. Í fyrra hafi þeir skilið bíla sína eftir fyrir innkeyrslu á tún á miðjum heyskap. Þarna hafi verið á ferð göngufólk sem hafi viljað spara sér sporin. „Það er ekki þægilegt að ætla að slá klukkan sjö að morgin en bílar loka leiðinni,“ segir Ingibjörn.

Þorir ekki að rétta litlaputta

Hann telur ómögulegt að leyfa takmarkaða umferð um sandinn eða að leyfa ákveðnum hópum aðgang. Ef fólk sjái einhvern á sandinum telji það að hann sé opinn öllum. „Það þarf annaðhvort að vera opið eða lokað. Ég er búin að búa hér í 60 ár og veit alveg hvað ég er að segja. Það má hvergi rétta litlaputa því þá eru farnar báðar hendurnar næsta ár á eftir. Það er eins og menn skilji þetta ekki,“ segir hann.

„Ísland verður ekki merkilegt“

Ingibjörn á Hofsströnd telur sig þurfa að vernda sandinn fyrir ágangi ferðmanna sem hafi tilhneigingu til að taka með sér skrautsteina. Hann lokar Hofstrandarsandi með vísun í 18. grein náttúrverndarlaga þar sem segir meðal annars: „Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Þó er í sérstökum tilvikum heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og stiga för manna og dvöl á afgirtu óræktuðu eignarlandi í byggð ef það er nauðsynlegt vegna nýtingar þess eða verndunar.“ Hann hefur ráðið sér lögfræðing til að halda utan um rétt sinn og bendir á að aðrar fjörur í firðinum séu lokaðar. „Ég er búinn að fá minn skammt af átroðningi,“ segir Ingibjörn. „Þetta kom til greina fyrir 10 árum þegar ég girti sandinn að opna fyrir ferðafólk en við slógum það út af borðinu. Ísland verður ekki merkilegt eftir 20 ár þegar búið verður að týna allt sem menn hafa áhuga fyrir.“

Á Facebook-síðu mótmælanna gegn lokun sandsins stendur: Tilgangur þeirrar gönguferðar er að lýsa andstöðu okkar gagnvart framkomu ábúenda á jörðinni gagnvart þeim heimamönnum og gestum sem vilja njóta aðgengi að Hofstrandarsandinum. Við höfum sýnt ótrúlega þolinmæði gagnvart þeim viðbrögðum sem ábúendur þar hafa sýnt ferðamönnum, sem og öðrum, sem hafa viljað heimsækja Hofstrandarsandinn. Við sjáum enga ástæðu til að halda því umburðarlyndi áfram og þess vegna stefnum við fólki, sem vill mótmæla núverandi ástandi í þessum málum, í gönguferð frá Fjarðarárbrúnni. Gengið verður þaðan eftir sandinum, án þess að fara inn á landgræðslusvæði, og endað verður með því að ganga upp með Helgánni. Okkar Fjörður, Okkar Sandur, Okkar Réttur.“