Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hamskeri, þakdúkari og kerfóðrari í framboði

Mynd með færslu
 Mynd:
Einkaþjálfarar, viðburðastjórnendur og guðfræðingar eru á meðal frambjóðenda til alþingiskosninganna í lok mánaðarins. Framkvæmdastjórar, lögfræðingar, bændur og kennarar eru eftir sem áður stór hluti frambjóðenda. Starfsheiti eru tilgreind við nöfn flestra frambjóðenda á framboðslistum flokkanna. Fréttastofa fór yfir listana og kynnti sér starfsreynslu frambjóðenda.

Kynjahlutföll

Fjöldi karla er talsvert meiri en kvenna á framboðslistunum fyrir alþingiskosningarnar 28. október. Alls er 682 karlar í framboði og 562 konur og er kynjaskipting misjöfn eftir stjórnmálaflokkum. Þeir flokkar sem eru með framboðslista í öllum kjördæmum eru með alls 126 manns á sínum listum. 

Mesta jafnvægið er á listum Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs þar sem jafnmargar konur eru í framboði og karlar. Viðreisn er hinsvegar eini flokkurinn sem er með fléttulista sem tryggir að kynjahlutfallið er einnig jafnt í hverju kjördæmi.  

Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn eiga það sameiginlegt að fleiri konur eru í framboði fyrir flokkana en karlar. Hjá Sjálfstæðisflokknum er 65 konur í framboði og 61 karl og hjá Bjartri framtíð eru 64 konur í framboði og 62 karlar.

Konur eru einnig fleiri en karlar hjá Dögun. Flokkurinn býður fram í einu kjördæmi; suðurkjördæmi. Þar eru 20 á framboðslista, 13 konur og sjö karlar.  

Hjá öðrum flokkum eru karlar í meirihluta, í mismiklum mæli þó. Þegar litið er til þeirra flokka sem bjóða fram í öllum kjördæmum er í þessum hópi minnstur kynjahalli hjá Framsóknarflokknum, sem er með 66 karla í framboði og 60 konur. Hjá Flokki fólksins eru karlarnir 70 en konurnar 56, hjá Pírötum eru karlarnir 79 og konurnar 47 en mestur er munurinn hjá Miðflokknum. Þar er 81 karl í framboði en 45 konur. 

Alþýðufylkingin býður fram í fjórum kjördæmum og eru alls 90 manns á framboðslistum flokksins; 66 karlar og 24 konur. Hlutfallslega er mesti kynjamunurinn þar, 73 prósent karlar. 

Fjöldi námsmanna á framboðslistum 

Hefð er fyrir því að reyndir stjórnmálamenn sitji í heiðurssætum framboðslista flokka. Stjórnmálamenn eru mismargir eftir framboðum en eru stærsta starfsstéttin á framboðslistum. Fjöldi námsmanna er í framboði og eru þeir um eða yfir tugur hjá hverjum flokki. Kennarar eru einnig margir og af öllum skólastigum. Hlekkir eru á vefsíður flokkanna undir nöfnum þeirra hér fyrir neðan en einnig má kynna sér framboðslistana í heild eftir kjördæmum á kosningavef dómsmálaráðuneytisins. 

Björt framtíð

Kennarar eru fjölmennasta starfsstéttin meðal frambjóðenda Bjartrar framtíðar, alls fjórtán frambjóðendur vinna við kennslu í grunnskóla, framhaldsskóla eða tónlistarskóla. Nemar eru litlu færri en á meðal frambjóðenda flokksins eru tíu í námi. 14 frambjóðendur sitja eða hafa setið á þingi eða sveitarstjórn, ráðherrar flokksins meðtaldir. Þá vinna tveir frambjóðendur Bjartrar framtíðar við viðburðastjórn, tveir við kvikmyndagerð og einn kokkur. 

Framsóknarflokkurinn

Sjö bændur bjóða sig fram fyrir Framsóknarflokkinn, níu kennarar og sex framkvæmdastjórar. Þá er 21 námsmaður í framboði fyrir Framsóknarflokkinn að þessu sinni. Núverandi og fyrrverandi stjórnmálamenn á þingi eða sveitarstjórnum eru alls 18.  Á meðal þeirra starfa sem vekja athygli á framboðslistum flokksins má nefna þakdúkara, lýðheilsufræðing og innkaupastjóra. 

Viðreisn

Hjá Viðreisn eru jafn margir frambjóðendur í starfi framkvæmdastjóra og eru í námi, en þrettán eru í hvorum hópi. Tíu lögfræðingar eru í framboði fyrir Viðreisn og ellefu frambjóðendur hafa verið í stjórnmálastarfi, hvort heldur sem það var á þingi eða í sveitarstjórn. Ráðherrar flokksins og þingmenn eru þar með taldir. Þá eru fjórir læknar í framboði fyrir flokkinn,  sex kennarar, einn bóndi og einn sjómaður. Þá má finna óperusöngvara, heimspeking og skipaverkfræðing á framboðslistum Viðreisnar. 

Sjálfstæðisflokkurinn 

Fjölmennasti einstaki starfshópurinn meðal frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins eru starfandi eða fyrrverandi ráðherrar, þingmenn eða sveitarstjórnarmenn. Alls eru 37 frambjóðendur flokksins með þennan bakgrunn. Tólf frambjóðendur flokksins eru í námi, sjö kennarar bjóða sig fram, sex lögfræðingar og sjö framkvæmdastjórar. Fjórir bændur bjóða sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tveir sjómenn. Þá má finna á listum flokksins hússtjórnarkennara, knattspyrnumann og stálvirkjasmíðameistara.

Flokkur fólksins

Húsmæður eru á framboðslistum flestra stjórnmálaflokka fyrir alþingiskosningarnar en hvergi jafn margar og á framboðslistum Flokks fólksins. Þar eru tíu húsmæður í framboði. Þær eru þó ekki fjölmennasta starfsstéttin á listum flokksins því þar hafa sjómenn vinninginn. Ellefu sjómenn bjóða sig fram fyrir Flokk fólksins og átta atvinnubílstjórar. Framkvæmdastjórar á framboðslistum Flokks fólksins eru þrír og lögfræðingar jafn margir. Þá má finna golfvallarstarfsmann á lista flokksins, kerfóðrara og hlaðmann. Einn af oddvitum flokksins hefur setið á þingi. 

Miðflokkurinn 

Framkvæmdastjórar eru fjölmennastir meðal frambjóðenda Miðflokksins en þeir eru alls tólf tilgreindir á framboðslistum flokksins. Níu bændur bjóða sig fram til Alþingis fyrir Miðflokkinn og sex kennarar. Þá má finna fjóra guðfræðinga á framboðslistum flokksins, þar af þrjá í einu kjördæmi; Reykjavíkurkjördæmi suður. Einnig eru á framboðslista Miðflokksins sex frambjóðendur á eftirlaunum, tveir einkaþjálfarar, hamskeri og hvalveiðimaður. Þá eru sjö frambjóðendur annað hvort á þingi eða í sveitarstjórn núna eða hafa áður gegnt slíku embætti.  

Píratar

Stór hópur frambjóðenda Pírata starfar við tölvugeirann. Störfin eru fjölbreytt, allt frá vefstjórn til hugbúnaðarsérfræðistarfa. Alls teljast tíu frambjóðendur starfa í þessum geira. Litlu fleiri frambjóðendur eru námsmenn, alls þrettán. Þá eru tíu öryrkjar á listum Pírata og þrettán frambjóðendur sitja á þingi eða í sveitarstjórnum eða hafa þá reynslu. Sex frambjóðendur eru framkvæmdastjórar, sex eru kennarar í grunn-,  framhalds-, eða tónlistarskólum og tveir eru háskólakennarar og einn leikskólakennari.  Á meðal athygliverðra starfstitla á framboðslistum Pírata má nefna nuddara, sundlaugarvörð og óperusöngkonu.

Alþýðufylkingin

Sex kennarar eru í framboði fyrir Alþýðufylkinguna, tveir leikskólakennarar, einn dósent og einn prófessor. Námsmenn á framboðslistum flokksins eru 16. Tveir bændur bjóða sig fram fyrir Alþýðufylkinguna, þrír verkamenn, þrír hjúkrunarfræðingar, einn leikari og einn kvikmyndagerðarmaður. Þá eru þrír öryrkjar á lista flokksins og tveir sem eru atvinnulausir. Á meðal frambjóðenda Alþýðufylkingarinnar má finna pizzasendil, skrúðgarðyrkjufræðing, flakkara og slökkviliðsmann.

Samfylkingin

Á listum Samfylkingarinnar má sjá  14 frambjóðendur í námi, átta kennara og tvo háskólakennara. Þá eru sex lögfræðingar á framboðslistum flokksins, fimm framkvæmdastjórar, þrír læknar og þrír sem eru rithöfundar eða handritshöfundar. Einn til viðbótar er hvorutveggja. Þá eru tveir viðburðastjórnendur í framboði fyrir Samfylkinguna, tveir bændur og einn dramatúrgur. 20 frambjóðendur eru eða hafa verið á þingi eða í sveitarstjórn. 

Dögun

Dögun býður bara fram í suðurkjördæmi og eru 20 í framboði fyrir flokkinn. Á listanum má finna 3 kennara og einn lektor, tvær húsmæður sem báðar eru í námi, einn viðburðastjórnanda sem sömuleiðis er í námi, einn lækni og einn stílista svo dæmi séu tekin. Þá má einnig finna á framboðslistanum raffræðing, byggingafræðing og matvælafræðing.

Vinstri hreyfingin grænt framboð

Kennarar eru fjölmennasti hópurinn meðal frambjóðenda Vinstri grænna, alls þrettán. Þá eru níu bændur í framboði fyrir flokkinn. Fjórir framkvæmdastjórar bjóða sig fram fyrir Vinstri græna, fjögur skáld, tveir listamenn og ellefu námsmenn.  Þá má finna fornfræðing, þjóðfræðing og setjara á framboðslistum flokksins. Frambjóðendur sem sitja eða hafa setið á þingi eða í sveitarstjórnum landsins eru alls 21.

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV