Hamingjan bætir heilsu og vinnuafköst

21.02.2019 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Hamingja er grafalvarlegt mál fyrir viðskiptalífið, segir breskur sérfræðingur. Hamingjusamt fólk afkasti meiru í vinnunni og sé sjaldan veikt. Hrundið hefur verið af stað átaki hér á landi til að draga úr streitu á vinnustöðum.

Hamingja á vinnustöðum er alvörumál er yfirskrift ráðstefnu sem VIRK starfsendurhæfing, embætti landlæknis og Vinnueftirlitið stóðu fyrir í dag. Þar tók til máls breskur fyrirlesari og fjallaði um vellíðan, þrautseigju og hamingju á vinnustöðum. Brýnt sé að yfirmenn láti líðan starfsmanna sig varða.

„Það er viturlegt fyrir reksturinn og að auki réttlætismál. Við vitum, og æ fleiri vísbendingar sýna, að fólk sem er ánægt í vinnunni er ólíklegra til að veikjast, fá kvef, hjartasjúkdóma og er líklegra til að annast vel um sjálft sig. Fólk sem er ánægðara í vinnunni afkastar meira í vinnunni. Rannsóknir á orsakatengslum sýna að fólk sem er ánægðara í starfi sínu afkastar tólf prósentum meira án þess að það komi niður á gæðum,“ segir Vanessa King, fyrirlesari og sérfræðingur um vellíðan, þrautseigju og hamingju á vinnustöðum.

 

Mynd með færslu
 Mynd:

Vanessa bendir á að það sé líka samfélagslega betra ef fólk er hamingjusamt í vinnunni.

„Því er fólk er vansælt í vinnunni kemur það niður á fjölskyldulífinu og því sem lagt er af mörkum til nærsamfélagsins,“ segir Vanessa.

Vinnuveitendur geti gert ýmislegt til að auka hamingju fólks.

„Sýnið starfsfólkinu umhyggju, takið eftir því að það sé til. Sýnið áhuga á tilveru þess,“ segir Vanessa.

Í lok ráðstefnunnar var skrifað undir samkomulag um heilsueflingu á vinnustöðum.

„Við sjáum að streita er of mikil í samfélaginu og við sjáum kulnun og brottfall af vinnumarkaði. Það að efla sérstaklega sálfélagslega þætti á vinnustöðum teljum við að vinni gegn þessu,“ segir Alma D. Möller landlæknir.

Vanessa segir að aukin hamingja í vinnunni geti dregið úr líkum á kulnun.

„Það er auðvelt að afgreiða hamingjuna sem léttvæga en ég segði að hamingjan væri alvörumál fyrir fyrirtækin,“ segir Vanessa.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi