Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hámarksgreiðslur fæðingarorlofs taka kipp

18.12.2018 - 22:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Hámarksgreiðslur fæðingarorlofs hækka um áttatíu þúsund krónur frá og með áramótum samkvæmt nýrri reglugerð. Þakið á fæðingarorlofi hefur aldrei verið hærra í krónum talið en greiðslur voru þó hærri að raunvirði fyrir hrun. Forstöðumaður fæðingarorlofssjóðs vonar að feður nýti sér fæðingarorlof í meira mæli.

Framlög aukast um 1,8 milljarða

Hæstu greiðslur til foreldra barna sem fæðast frá og með fyrsta janúar verða 600 þúsund krónur á mánuði en þær hækka úr 520 þúsundum. Aukin framlög ríkisins eru áætluð um 1,8 milljarðar á ársgrundvelli vegna þessa, segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Haft er eftir félags- og jafnréttismálaráðherra að hækkunin sýni áherslur stjórnvalda í verki, en í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, sem og stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar, er kveðið á um hækkun á hámarksgreiðslum fæðingarorlofs. Þá er kveðið á um lengingu orlofs í núgildandi sáttmála.

Vonar að feður nýti orlofið

„Strax í kjölfar hrunsins þegar greiðslur tóku að lækka var það alltaf stefna stjórnvalda að hækka þær aftur við fyrsta tækifæri,“ segir Leó Örn Þorleifsson, forstöðumaður fæðingarorlofssjóðs. „Með þessari allra síðustu hækkun þá held ég að við séum kannski komin á býsna góðan stað aftur og getum farið að gera okkur væntingar og vonir til þess að nýting á fæðingarorlofskerfinu taki að aukast aftur og þá sér í lagi hjá feðrunum.“

Hæsta þakið í krónum talið

Greiðslur miðast við áttatíu prósent af meðaltali heildarlauna en árið 2005 var sett þak á greiðslurnar. Í góðærinu 2006 og 2007 var þakið rétt rúmlega 500 þúsund krónur og náði hámarki 2008 með 536 þúsundum á mánuði. Árið 2009 voru greiðslur lækkaðar í tveimur skrefum niður í 350 þúsund krónur á mánuði. 2010 til 2012 voru hámarksgreiðslur þær lægstu sem þær hafa verið eða 300 þúsund krónur. Síðan hækkuðu þær hægt og bítandi og voru orðnar 370 þúsund fyrri hluta árs 2016 en voru svo hækkaðar í 500 þúsund krónur seint á á árinu. Sú upphæð var hækkuð í 520 þúsund í ár en tekur kipp frá og með áramótum upp í 600 þúsund, hæsta þak sem þekkst hefur í krónum talið.

Hærri greiðslur að raunvirði fyrir hrun

Sé litið til raunvirðis samkvæmt vísitölu neysluverðs er hins vegar ljóst að hámarksgreiðslur voru hærri fyrir hrun, þær voru yfir 800 þúsundum að núvirði, um 500 þúsund árið 2009 og samkvæmt verðbólguspá verða 600 þúsund krónu greiðslur næsta árs um 580 þúsund króna virði.