Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hámark 50 geti farið úr skipum á Hornstrandir

10.08.2018 - 14:34
epa05032425 A handout photograph made available on 19 November 2015 by the British Ministry of Defence showing a British Royal Air Force (RAF) Sea King helicopter winching passengers to safety from the French cruise ship La Boreal. La Boreal was approx. 3
 Mynd: EPA - BRITISH MINISTRY OF DEFENCE
Eftir að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hornstrandir fyrir árin 2018 til 2027 tekur gildi geta að hámarki 50 farið úr skemmtiferðaskipum inn í friðlandið. Gert er ráð fyrir að áætlunin taki gildi í haust. Frestur til að skila inn umsögnum um hana rann út 17. júlí og segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun að nú sé verið að fara yfir athugasemdir og vinna úr þeim.

Í fréttum RÚV í fyrradag var sagt frá því að hátt í tvö hundruð farþegar skemmtiferðaskips hefðu farið í land í friðlandinu á Hornströndum fyrr um daginn.

Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og landvörður, kallaði eftir reglum um landtöku. „Það að fá 200 manns inn í svo viðkvæmt lífríki hefur óneitanlega gríðarleg áhrif. Og ég hef áhyggjur af því að á meðan við höfum ekki tæki til að stoppa þetta þá séu bara fleiri skip á kantinum sem vilja gera þetta líka,“ sagði Kristín.  

Í drögum að stjórnunar- og verndaráætluninni hefur Hornströndum verið skipt upp í nokkur svæði. Þar kemur fram að á svokölluðu A-svæði verði aðeins heimilt að fara með 30 manns eða færri. Á svæði B skulu skipulagðar hópferðir ekki vera fjölmennari en 15 nema að höfðu samráði við Umhverfisstofnun. Á Miðfelli takmarkast hópastærðir við 10 manns.

Þá kemur fram að landtaka skipa með 50 eða fleiri farþega og farartækja í tengslum við þau sé óheimil innan friðlandsins. Undanskildar banninu séu leitar- og björgunaraðgerðir og starfsemi Landhelgisgæslunnar.