Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hallmar ræðir um dauðann í „Listin að deyja“

31.01.2016 - 18:22
SONY DSC
 Mynd: Magnús Orri Schram - RÚV
Hallmar Sigurðsson leikari, leikstjóri og framkvæmdarstjóri lést á Landsspítalanum í gær, 63 ára að aldri. Hallmar greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum. Hann ræddi sjúkdóminn, hvernig hann tókst á við það að greinast með banvænan sjúkdóm, Í útvarpsþættinum „Listin að deyja“, í desember í fyrra.

 Hægt er að hlusta á þáttinn hér.

Hallmar var skorinn upp vegna krabbameins. Seinna kom svo í ljós að krabbameinið hafði dreifst um líkamann og var í eitlum og lifur. Hallmar segir að hann hafi lagt mikla áherslu á hvað hann gæti sjálfur gert til að berjast við sjúkdóminn. Hann hafi sagt við lækni sinn að hann vildi skoða hvað hann gæti sjálfur gert - til dæmis gæti hann hætt að reykja. 

„Ég man að hann svaraði mér: „nei nei, vertu ekkert að því“. Og út úr því las ég að þetta væri nú kannski ekki mjög uppörvandi. Hann væri svona ekki að ýta undir mínar björtustu vonir.“

 

Segir Hallmar í þættinum og hlær. Sjúkrasögur séu nefnilega oft þannig, líkt og aðrar sögur, að það sé hægt að hlæja að ýmsu.

Hallmar var lengi leikstjóri hjá Útvarpsleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Húsavíkur og við Listaháskóla Íslands. Hann var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1987 til 1991.

Síðustu árin var Hallmar framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands, starfaði sjálfstætt við menningarráðgjöf og vann að listmálun og skrifum. Eftirlifandi eiginkona Hallmars er Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV