Hallar á Lars Løkke í Danmörku

08.04.2019 - 17:08
Mynd: Danmarks Radio / Danmarks Radio
Stjórnarandstaðan í Danmörku er með talsvert meira fylgi en ríkisstjórn Lars Løkkes Rasmussens samkvæmt könnunum. Samkvæmt útreikningi vefritsins Altinget.dk er hafa Jafnaðarmenn undir forystu Mette Frederiksen bætt við sig fylgi frá kosningunum 2015, en Venstre, flokkur Lars Løkkes, tapað fylgi. Danski þjóðarflokkurinn, stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar, hefur einnig tapað fylgi. Ekki hefur verið boðað til kosninga í Danmörku, en kjörtímabilið rennur út 17. júní.

Beðið er eftir því í Danmörku að forsætisráðherra boði til þingkosninga. Síðast var kosið í Danmörku 2015 og fjögurra ára kjörtímabili lýkur 18. júní. Kosningar verða því í síðasta lagi 17. júní.

Ríkisstjórnin á undir högg að sækja

Skoðanakannanir benda til þess að ríkisstjórnin falli og vinstriflokkarnir sem eru í stjórnarandstöðu fái meirihluta á Folketinget, danska Þjóðþinginu. Danir kjósa 175 sæti, Færeyingar tvö og Grænlendingar sömuleiðis. Þau þingsæti gætu ráðið úrslitum um hvort hægri- eða vinstrifylkingin mynda stjórn eftir kosningarnar. Stjórnarmyndun í Danmörku getur verið flókin því níu flokkar eiga sæti á þinginu í Kaupmannahöfn. Á stundum hefur afstaða þingmanna Færeyja og Grænlands ráðið úrslitum. 

Þingmenn Færeyja og Grænlands geta skipt máli

Sæti Færeyinga og Grænlendinga skiptast þó venjulega jafnt á milli hægri- og vinstrifylkinganna, eða bláu og rauðu blokkanna eins og talað er um í Danaveldi. Hægri- og vinstriafstaða þingmanna Færeyja og Grænlands ræður þó ekki alltaf úrslitum. Annar þingmaður Færeyinga nú er Magni Arge, fulltrúi Þjóðveldis, sem er til vinstri í stjórnmálum. Sú skilgreining segir þó ekki alla söguna, flokkurinn berst fyrir sjálfstæði Færeyja. Arge segir að Þjóðveldið vilji ekki taka þátt í dönskum stjórnmálum en ef þeir þurfi að taka afstöðu velji þeir þann kost sem gagnist sjálfstæðisbaráttunni best.

Frederiksen vinsælli en Lars Løkke

Eins og staðan er nú lítur ekki út fyrir að þingsæti Færeyja og Grænlands skipti máli því rauða blokkin, vinstri flokkarnir, eru með nokkuð forskot á hægriflokka. Fréttavefurinn Altinget.dk birtir í dag meðaltal nýlegra kannana og þar hefur rauða blokkin afgerandi forystu. Kannanir benda jafnframt til þess að Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmanna og forsætisráðherraefni rauðu blokkarinnar, njóti talsvert meiri stuðnings en Lars Løkke, forsætisráðherra.

Lars Løkke harður í horn að taka

Stjórnmálaskýrendur minna þó á að engin könnun hafi verið gerið eftir að þau tvö tókust á í kappræðum í sjónvarpi fyrir rúmri viku. Formleg kosningabarátta er heldur ekki hafin og Lars Løkke er gamall refur sem er reyndari í stjórnmálum en Frederiksen. Það kom í ljós í kappræðunum. Eitt helsta kosningamál Frederiksen og Jafnaðarmannaflokks hennar er að gera þeim sem hafa stundað erfiðisvinnu kleift að fara fyrr á eftirlaun. Lars Løkke benti á að þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til þessa dygðu hvergi nærri til að allt erfiðisvinnufólk gæti hætt fyrr að vinna.

Blekkingarleikur segir Lars Løkke

Tillögur Jafnaðarmanna væru meiriháttar blekkingaleikur, þau hefðu ekki tilgreint hverjir ættu rétt á að hætta fyrr, koma ákveðnar tillögur um hverjir eigi rétt áður en kosið verður? spurði forsætisráðherrann. Mette Frederiksen vísaði því á bug að tillögurnar væru blekkingarleikur, tillögurnar væru fjármagnaðar að fullu, um grundvallaratiði væri að ræða, erfiðisvinnufólk sem væri vinnulúið gæti hætt fyrr en aðrir á vinnumarkaði.

Hverjir í hópi vinnulúinna mega hætta fyrr?

Lars Løkke hélt áfram að höggva í sama knérunn, krafði Frederiksen um svar um hverjir í hópi þúsunda vinnulúinna mættu hætta fyrr, þeir yrðu ekki mjög margir fyrir þrjá milljarða danskra króna, væri þetta þá bara byrjunin og væri ætlunin að auka útgjöldin enn. Mette Frederiksen sagði að hugsanlega yrði að verja meira fé í málaflokkinn, svo kvartaði hún yfir eilífri gagnrýni Lars Løkkes og krafði hann svara um sínar tillögur. 

Forsætisráðherrann stóð sig betur

Forsætisráðherraefnin héldu áfram að munnhöggvast um þetta mál en flestir stjórnmálaskýrendur voru þeirrar skoðunar eftir kappræðurnar að Lars Løkke hefði klárlega borið sigur úr býtum. Henrik Qvortrup, stjórnmálaskýrandi Ekstrablaðsins tók djúpt í árinni. 

,,Mette Frederiksen var gjörsigruð, Lars Løkke Rasmussen sló þung högg sem hljóta að hafa verið mjög sársaukafull, sérstaklega um rétt vinnulúinna til að fara á eftirlaun, Mette Frederiksen gat einfaldlega ekki svarað."

Næsta kannana beðið með spenningi

Aðrir hafa ekki verið jafn afdráttarlausir í dómi um kappræðurnar og alls óvíst hvort þær hafi mikil áhrif. Engu að síður er næstu skoðanakannana beðið með spenningi. Haldi stjórnarandstaðan sömu yfirburðarstöðu í næstu könnunum er þetta búið spil fyrir Løkke, segir Erik Holstein, stjórnmálaskýrandi Altinget.dk. 

Hafi staðan breyst stjórninni í hag í næstu könnunum er líklegt að Lars Løkke Rasmussen boði fljótlega til kosninga, sem verða í síðasta lagi, eins og áður kom fram, 17. júní.

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi