Hálfstálpaður rostungur skemmti farþegum

26.09.2013 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Rostungur skemmti farþegum hvalaskoðunarbáts Norðursiglingar á Skjálfandaflóa í gær. Þetta er í fimmta sinn sem rostungur sést hér við land í sumar og haust.

Það var um klukkan hálf tvö í gær að farþegar og áhöfn hvalaskoðunarbátsins Bjössa Sör sáu rostung á sundi skammt undan höfninni á Húsavík. Rostungar eru afar sjaldgæf sjón í hvalaskoðun enda segir Hrólfur Þórhallsson, skipstjóri á Bjössa Sör, að mikil spenna hafi myndast um borð. Hann segist aldrei hafa séð rostung áður og hélt í fyrstu að þetta væri selur en þegar hann sigldi nær dýrinu kom annað í ljós.

„Hann var alveg ósmeykur við okkur og var bara hérna upp við bátinn og var mikið uppi. Við vorum hjá honum í einhverjar 20 mínútur og hann var alltaf mjög grunnt. Farþegarnir voru mjög hissa og munduðu myndavélarnar,“ segir Hrólfur.

Rostungar hafa verið óvenju algengir hér við land síðustu mánuði og þetta er að minnsta kosti í fimmta sinn frá því í júní sem þeirra verður vart hér. Þar hefur reyndar í einhverjum tilfellum verið um sama dýrið að ræða. En Hrólfur telur að rostungurinn á Skjálfandaflóa sé farinn. „Hann var allavega ekki við hafnargarðinn núna í morgun þegar ég fór út. En mér fannst þetta ekki vera fullvaxið dýr miðað við þær myndir af rostungum sem ég hef séð. Meðal annars í fréttum í sumar á Reyðarfirði. Þá fannst mér þetta vera svona hálfstálpað dýr.“