Hálfbróðirinn hugsanlega fundinn

07.09.2017 - 23:30
Mynd með færslu
 Mynd: Viktoría Hermannsdóttir - Facebook
Leit Bandaríkjamannsins David Balsam að hálfbróður hér á landi hefur líklega borið árangur. Þeir bræðurnir ætla að hittast á næstunni. Faðir Davids, Roderick Donald Balsam, var bandarískur hermaður og dvaldi hér á landi í síðari heimsstyrjöldinni og eignaðist son með íslenskri konu.

David hafði samband við Viktoríu Hermannsdóttur, dagskrárgerðarkonu á RÚV, sem gerði þættina Ástandsbörn voru fluttir á Rás 1 fyrr á þessu ári og bað hana um hjálp við leitina. Faðir hans eignaðist son hér á landi á tímabilinu 1944 til 1945. David telur að konan sem hann eignaðist soninn með heiti Guðbjörg Tómasdóttir.

Veit lítið um bandarískan föður sinn

Viktoría leitaði eftir hjálp frá vinum sínum á Facebook við að finna bróðurinn og birti þar gamla mynd af föðurnum. Hún greindi svo frá því í kvöld að hugsanlega væri bróðirinn fundinn. Þökk sé glöggum Facebook-vini og Google þá komst hún á sporið og hafði uppi á manni sem passaði við lýsinguna. Sá kannast við að vera ástandsbarn en vissi ekkert um föður sinn en nafn móðurinnar og fæðingarárið passa.

David var búinn að ákveða að koma til Íslands og ákvað að úr því hann væri á ferðinni myndi hann reyna að finna bróður sinn. „Hann hafði þó ekki miklar vonir um að finna hann,“ segir Viktoría. „Faðir hans hafði sagt fjölskyldunni lítið sem ekkert um barnið á Íslandi annað en það að hann hefði feðrað barn áður en hann fór frá landinu. Og svo voru þau með nafnið á móðurinni en vissu ekki hvort það væri rétt nafn.“ 

Ætla að hittast á næstunni

Viktoría segir að David sé himinlifandi með að vera mögulega búinn að finna hálfbróður sinn á svo stuttum tíma. Hann hafði samband við Viktoríu í síðustu viku og hún setti færsluna á Facebook 5. september. „Hann trúði þessu eiginlega ekki og er rosalega þakklátur öllum sem deildu færslunni fyrir mig og bað mig að senda áfram sínar bestu þakkir. Hann er enn að melta það að mögulega hafi hann fundið hálfbróður sinn og er spenntur að hitta hann þegar hann kemur til landsins í næsta mánuði. Vonandi skýrast málin þá betur en mér finnst líklegra en ekki, þó ég þori auðvitað ekki að fullyrða það, að þarna sé hálfbróðirinn týndi fundinn,“ segir Viktoría.

Síðan Viktoría gerði þættina um Ástandsbörn hefur hún fengið mörg símtöl og skilaboð frá fólki sem er að leita að ættingjum sínum.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi