Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hálendisvegir opnaðir mánuði fyrr en venjulega

26.05.2017 - 12:01
DCIM\106GOPRO
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Hálendisvegir verða að öllum líkindum opnaðir um mánuði fyrr en venjulega. Yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni segir þetta afar óvenjulegt, og grípa þurfi til ýmissa ráðstafanna þar sem umferð um vegina verður mun lengur en alla jafna. Einhverjir vegir ættu að vera opnaðir í næstu viku.

Einhverjir vegir opna líklega í næstu viku

Snjóleysið síðasta vetur virðist hafa ýmsar afleiðingar. Vegagerðin er nú í óða önn að hefla og bera í hálendisvegi á Norðaustanverðu landinu, sem er mjög snemmt miðað við árstíma. Mjög lítill snjór er eftir á hálendinu.

Verið er að vinna í Hólsandi, austan Jökulsár á milli Grímsstaða og Ásbyrgis, sem ætti að ná að opna í næstu viku. Og eins veginn vestan frá Hólmatungum og upp að Dettifossi. 

Vegirnir óðum að þorna

Gunnar Bóasson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík, segir það afar óvenjulegt að snjór sé farinn svo snemma sumars. Líklega verða vegirnir opnaðir um mánuði fyrr en alla jafna. 

„Og síðan fara menn bara að hugsa lengra, bæði inn í Öskju og fara að kíkja á Sprengisandsleið,” segir hann.  „En við vitum að þetta var mjög snjólítið í vetur og það sem er næst byggð, það sem menn hafa skoðað, eru vegirnir bara óðum að þorna.” 

Ekki reiknað með landvörðum í byrjun júní

Venjulega eru hálendisvegirnir opnaðir um og eftir 20. júní. Og nauðsynlegt er að gera ráðstafanir þegar þeir eru opnaðir eins snemma og í ár. 

„Við getum reiknað með því að þurfa að hefla þá oftar, ef umferðin verður mánuði lengur heldur en á venjulega ári,” segir Gunnar. „Það þarf að huga að það sé komin hálendisvakt og að landverðir séu komnir á staðinn og það er eitt af því sem er vandamál að menn hafa ekkert reiknað með því að það þyrfti að vera með landverði í byrjun júní.” 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður