Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Haldið í gíslingu“ með slæmum vegum

15.11.2018 - 18:03
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Þrátt fyrir þrettán hundruð íbúa er ekki hægt að aka til og frá sunnanverðum Vestfjörðum á bundnu slitlagi. Fólki finnst því sé haldið í gíslingu, segir Bjarnveig Guðbrandsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps. Hún segir vonbrigði að sveitarstjórn Reykhólahrepps sé ekki samstíga sveitarfélögum á sunnanverðum Vestfjörðum um val á leið um Gufudalssveit. Íbúar séu orðnir langþreyttir á slæmum vegum. 

Ekki hægt að komast á bundnu slitlagi

Um þrettán hundruð manns búa á sunnanverðum Vestfjörðum, í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi. „Hér erum við ekki með malbikað í hvora átt, hvort sem það er á norðursvæðið eða suður og okkar upplifun er svolítið eins og það sé verið að halda okkur í gíslingu,“ segir Bjarnveig Guðbrandsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps. Til norðurs liggur leiðin um gamlan malarveg um Dynjandisheiði sem er ekki haldið opnum yfir háveturinn og til suðurs liggur leið um Gufudalssveit, oft kennd við Teigsskóg. Þar hafa vegabætur velkst um í kerfinu árum saman. „Fólk er bara orðið mjög þreytt og reitt því við sitjum bara ekki við sama borð og aðrir landsmenn,“ segir Bjarnveig.

Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarnveig Guðbrandsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps

 

Óttast tafir á framkvæmdum

Báðar leiðir eru á nýrri samgönguáætlun en framkvæmdir á Dynjandisheiði eiga ekki að hefjast fyrr en árið 2022. Þá hyggst sveitarstjórn Reykhólahrepps ráðast í svokallaða valkostagreiningu þar sem bornar eru saman ólíkar leiðir um Gufudalssveit. Bjarnveig óttast að það geti tafið málið enn frekar, sérstaklega ef sveitarstjórn ákveður að velja aðra leið en um Teigsskóg. „Ég varð fyrir miklum vonbrigðum, af því að við höfum öll verið samstíga með Þ-H leiðina og svo kemur einhver u-beygja,“ segir Bjarnveig.

Tryggvi Harðarson sveitarstjóri Reykhólahrepps segir ekki forsvaranlegt að sveitarstjórn afgreiði málið án valkostagreiningar en áætlað er að vinnu við hana ljúki innan þriggja vikna.