Í tilkynningu sem skrifstofa forseta Íslands sendi frá sér í dag segir að með í för með þeim verði embættismenn sænsku hirðarinnar og utanríkisþjónustu.
Samkvæmt tilkynningunni hefst heimsókn Viktoríu og Daníels á Bessastöðum með samverustund með forsetahjónunum og fundi með íslenskum og sænskum blaðamönnum. Þaðan verður ferðinni heitið í Hörpu þar sem hjónin kynnast íslensku tónlistarlífi og íslenskri menningu. Að því loknu býður Sænsk-íslenska viðskiptaráðið og sænska sendiráðið þeim til hádegisverðar. Síðdegis fara þau svo í skoðunarferð um Hellisheiðarvirkjun og heimsækja einnig stoðtækjafyrirtækið Össur.
Seinni dag heimsóknarinnar, á sjálfu brúðkaupsafmælinu, fara Viktoría og Daníel til Húsavíkur, þar sem þau fara í hvalaskoðun, heilsa upp á Húsvíkinga, og snæða hádegisverð í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Þá verður farið í skoðunarferð um Mývatn, Námaskarð og Goðafoss, og loks haldið til Akureyrar þar sem Viktoría og Daníel taka þátt í málþingi um savinnu á Norðurslóðum.
Viktoría og Daníel giftu sig í dómkirkjunni í Stokkhólmi þann 19. júní árið 2010. Hjónin kynntust í líkamsræktarstöð, en Daníel prins var þá einkaþjálfari prinsessunnar. Foreldrar Viktoríu, sænsku konungshjónin, giftu sig einnig þann 19. júní, árið 1976.