Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Halda þorrablót í Færeyjum

17.02.2018 - 14:08
Tinganes í Þórshöfn í Færeyjum
Þórshöfn í Færeyjum. Mynd úr safni. Mynd: Danmarks Radio
Þorrablót hafa verið haldin á Íslandi um áratugaskeið og lengi af Íslendingafélögum erlendis. Í kvöld bregður hins vegar svo við að haldið verður þorrablót í Þórshöfn í Færeyjum sem heimamenn hafa skipulagt.

Þorrablótið í kvöld fer fram á veitingastaðnum Sircus í Vágsbotni í Þórshöfn, sem er reyndar innblásinn af skemmtistaðnum Sirkus sem eitt sinn var starfræktur á Frakkastíg í Reykjavík. Þar verður í kvöld boðið upp á íslenskan þorrabjór og þjóðlegan mat, bæði íslenskan og færeyskan.

Það eru Færeyingar sem standa að þorrablótinu í kvöld en eru í samvinnu við íslenskt brugghús um þorrabjórinn sem verður á borðum í kvöld.

Sunneva Háberg Eysturstein, eigandi Sirkuss, sagði í Útvarpi Færeyja að á Þorrablótinu yrði byggt á íslenskum og færeyskum hefðum, að ógleymdum þorrabjórnum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV