Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Halda megi happadrætti og bingó á helgidögum

30.10.2018 - 09:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sú þjónusta sem hingað til hefur verið bönnuð á helgidögum verður leyfð ef frumvarp sem nú er í smiðum í dómsmálaráðuneytinu verður að lögum. Eina ákvæðið sem eftir mun standa er um að óheimilt sé að trufla guðsþjónustur, kirkjulegar athafnir eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er viðkomandi athafnar.

Drög að frumvarpinu hafa ekki verið lögð fram á Alþingi en eru til kynningar í asmráðsgátt stjórnvalda. Þar kemur fram að nái frumvarpið fram að ganga verði unnt að koma betur til móts við þá sem stunda vilja afþreyingu á helgidögum og þá sem vilja njóta eða veita þjónustu á þeim dögum.  

Samkvæmt lögum um helgidagafrið er bannað að halda skemmtanir á borð við dansleiki eða opinber einkasamkvæmi á veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að á helgidögum. Þar er átt við aðfangadagskvöld, jóladag, föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Bannið gildir líka um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram og um opnanir verslana. 

Elías Þórsson, verkefnastjóri samskiptamála hjá Biskupsstofu, segir frumvarpið verða til umræðu á Kirkjuþingi um helgina. Biskup Íslands muni ekki tjá sig um málið fram að þeim tíma. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV