Hagsveifla Evrópu gjörólík þeirri íslensku

22.07.2017 - 12:34
Staflar af klinki.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Hagsveifa evrusvæðisins undanfarin ár hefur verið gjörólík þeirri íslensku. Tengin krónu og evru hefði falið í sér sameiginlega peningastefnu sem hefði alls ekki hentað hér á landi. Hagfræðiprófessor segir að það krefðist töluvert agaðrar hagstjórnar að tengja íslensku krónuna við erlendan gjaldmiðil og koma á fót myntráði, eins og fjármálaráðherra hefur lagt til.

Myntráð er fyrirkomulag þar sem lítil mynt, eins og íslenska krónan, er tengd erlendri mynt með skuldbindingu um að tilteknu gengi verði haldið milli myntanna. Til þess þarf vænan myntforða hjá Seðlabankanum til að skipta lausu fé í evrur. Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, segir að myntráð kalli á að fylgja peningastefnu þess svæði sem notar viðkomandi mynt. Búast má við því að vextir yrðu þeir sömu og á evrusvæðinu ef farin væri sú leið að tengja krónu við evru. Slíkt sé þó ekki endilega eingöngu af hinu góða.

„Það þýðir náttúrulega að peningastefnan getur verið úr takti við það sem þarf. Og til þess að þetta fari ekki illa og bara svona springi að lokum þá þarf mikinn aga í hagstjórninni, það þarf aga í peningamálum vegna þess að verðbólgan þarf í raun og veru þá að vera svipuð og á evrusvæðinu ef við myndum binda við evru,“ segir Friðrik Már.

Því til viðbótar þarf öguð ríkisfjármál því hann segir lausatök í ríkisfjármálum geta leitt yfir í verðbólgu. Þriðja atriðið sem Friðrik segir vert að nefna varðandi Ísland eru kjarasamningar.

„Kjarasamningar hér hafa oft verið með mjög miklum launahækkunum. Það þýðir bara að samkeppnisstaða landsins versnar og að lokum þá þola útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegir ekki ástandið sem myndast og það getur leitt til þess að svona fyrirkomulag springi.“

Hagsveiflan á Íslandi er auk þess að sögn Friðriks oft töluvert ólík því sem gengur og gerist í þeim löndum sem nota Evru. Undanfarin fimm ár eða svo hefur hagvöxtur evruríkja verið mjög lítill og stýrivextir nálægt núlli - og meira að segja neikvæðir í Sviss til að hvetja sparifjáreigendur til að eyða fé sínu. Hér á landi hefur aftur á móti verið mikill hagvöxtur.

„Þessi peningastefna á þessum síðustu árum sem að hefur verið mikill uppgangur og hagvöxtur á Íslandi hefði alls ekki hentað hér. Hvort sem fólkinu líkar það betur eða verr í svona miklum hagvexti þá þurfa raunvextir að vera jákvæðir og hærri en þar sem er mjög lítill hagvöxtur og lítil eftirspurn og þarf frekar að örva hana.“

 

Gunnar Dofri Ólafsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi