Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Hagstætt að sameina í A-Húnavatnssýslu

Mynd með færslu
 Mynd:
Beint fjárhagslegt hagræði af sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu gæti verið allt að 50 milljónir króna á ári. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um hagkvæmni sameiningar. Skuldahlutfall sameinaðs sveitarfélags yrði nálægt landsmeðaltali.

Það eru fjögur sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu; Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd og Skagabyggð. KPMG hefur gert úttekt á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaganna og hvaða áhrif sameining hefði á rekstur þeirra.

Niðurstöðurnar voru kynntar á sameiginlegum fundi í gær og þar kemur fram að nokkur ávinningur yrði af sameiningu. Beinn árlegur sparnaður í rekstri, einkum vegna hagræðingar í yfirstjórn og aukinna tekna frá Jöfnunarsjóði, þýddi að fjárhagslegt hagræði gæti orðið allt að 50 milljónir króna á ári. Þá er bent á möguleika til frekari hagræðingar, meðal annars í öldrunarmálum og rekstri grunnskóla.

Fjárhagsleg staða sveitarfélaganna er afar misjöfn en samanlögð rekstrarniðurstaða á síðasta ári var jákvæð og  sameinað er sveitarfélagið talið ráða vel við skuldbindingar sínar. Til framtíðar telur KPMG að sameinað sveitarfélag standi vel að vígi með reksturinn, í samanburði við önnur landsvæði og hafi góða vaxtarmöguleika. Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar á Blönduósi, leggur áherslu á að þetta séu eingöngu fjárhagslegar forsendur hugsanlegrar sameiningar.

„Menn eru ekki farnir að ræða sameiningu formlega á þessu stigi. Það sem menn gera núna, er að taka þetta heim og ræða þetta í þessum fjórum sveitarstjórnum.“ Rætt hafi verið um þetta í gær. „Að við myndum koma saman strax eftir áramót. Þá til að ræða næstu skref sem eru kannski, ef menn eru tilbúnir til að ræða það, stefnumörkun eða hvernig menn gætu þá séð framtíðarsveitarfélag fyrir sér, ef til þess kæmi.“