Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hagnast á HS Veitum

23.02.2015 - 19:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Af þeim tveimur milljörðum sem HS Veitur greiða út í arð þegar hlutafé fyrirtækisins verður fært niður, koma um 700 milljónir í hlut HSV eignarhaldsfélags, sem Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir á með lífeyrissjóðum, fjárfestingarsjóðum og einu tryggingafélagi.

Reykjavík vikublað greindi fyrst frá því um helgina að HS Veitur, sem sjá um dreifingu á heitu og köldu vatni og rafmagni á Suðurnesjum, Hafnarfirði og fleiri sveitarfélögum, hygðust kaupa bréf af eigendum sínum fyrir tvo milljarða króna og minnka svo hlutaféð í samræmi við það. Eignasamsetningin breytist ekki við þessa niðurstöðu. Samkvæmt útreikningum fréttastofu minnkar hlutaféð um 20 prósent við þessa breytingu. Samkvæmt þessu fær Reykjanesbær í sinn hlut rúman milljarð, Hafnarfjarðarbær rúmar 300 milljónir króna og Sandgerðisbær rúmar tvær milljónir.

Næststærsti eigandinn, HSV eignarhaldsfélag, fær svo í sinn hlut hátt í 700 milljónir króna. Samkvæmt nýjustu upplýsingum um eignarhaldið, sem eru í úrskurði samkeppniseftirlitsins frá því í apríl í fyrra, eiga lífeyrissjóðir mest í félaginu. Tryggingamiðstöðin á þó sextán prósent og Ursus, eignarhaldsfélag Heiðars Más Guðjónssonar fjárfestis, á þrettán prósenta hlut. Þegar eignarhaldsfélagið keypti hlutinn á sínum tíma greiddi það ríflega þrjá milljarða króna fyrir hlutinn og því hefur hátt í þriðjungur þess fengist til baka með þessari arðgreiðslu.

Samkvæmt ársreikningi HS Veitna, sem var birtur fyrir helgi, skiluðu þær ríflega 800 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Eiginfjárhlutfallið var yfir fimmtíu prósent, en það lækkar við þessa niðurfærslu. Forsvarsmenn HS Veitna fullyrða þó að það hafi ekki áhrif á rekstur fyrirtækisins.