Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hagfræðingar misskilja stöðu hvala á válista

23.01.2019 - 03:05
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons / Ruv - Wikimedia Commons
Nokkurs misskilnings gætir um stöðu hvala á válistum hér við land og á heimsvísu, í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Á þetta er bent í grein sem Náttúrufræðistofnun Íslands birti á vef sínum í gær, þar sem rakin eru tvö dæmi um þetta í skýrslu Hagfræðistofnunar, annars vegar um búrhvali og hins vegar langreyði.

Í grein Náttúrufræðistofnunar segir að búrhvalur sé metinn í nokkurri hættu á heimslista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna, IUCN. Á svæðisbundnum válista fyrir íslensk spendýr, sem unninn var í samvinnu við sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar er tegundin aftur á móti í flokknum gögn vantar. Í skýrslu Hagfræðistofnunar virðist þetta túlkað sem svo „að tegundin sé ekki í hættu og veiðar á henni því ákjósanlegar. Sú er ekki raunin," segir í grein Náttúrufræðistofnunar, „heldur skortir gögn til að unnt sé að meta ástand stofnsins með vissu.“

Dráp þúsunda langreyða myndi setja stofninn í hættu

Í skýrslu Hagfræðistofnunar er enn fremur fullyrt að með því að stórauka veiðar á hrefnu og langreyði megi auka útflutningstekjur Íslendinga að sama skapi. Þar segir að veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar miði að því að „hámarksnýting náist þegar hvalastofnar eru veiddir niður í 60% af hámarksstærð“ og að verðmæti sjávarafla Íslendinga gæti „aukist um á annan tug milljarða króna á ári“ ef stofnarnir yrðu minnkaðir um 40 prósent.

Náttúrufræðistofnun bendir á að langreyðarstofninn í Mið-Norður-Atlantshafi sé í dag talinn vera um 40.000 dýr og í sögulegu hámarki. Á heimsvísu er langreyður engu að síður talin í nokkurri hættu og vekur Náttúrufræðistofnun athygli á því að jafn mikil fækkun og lögð er til í skýrslu Hagfræðistofnunar „myndi breyta stöðu langreyðar á válista og tegundin yrði metin í hættuflokk við Ísland. Til að setja hlutföllin í tölulegt samhengi þá þýðir framangreint að veidd yrðu allt að 16.000 dýr,“ segir í grein Náttúrufræðistofnunar.