Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hagavatnsvirkjun ekki háð rammaáætlun

11.04.2018 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Áform eru um að minnka Hagavatnsvirkjun undir 10 megawött. Slíkar virkjanir falla ekki undir rammaáætlun. Í síðustu rammaáætlun var hún helmingi stærri og sett í biðflokk. Framkvæmdastjóri Íslenskrar vatnsorku það gert í samvinnu við sveitarfélagið Bláskógabyggð og heimamenn. 

Hagavatnsvirkjun var ein af þeim umtöluðu virkjunum sem ekki komust í nýtingarflokk í þriðja áfanga Rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landssvæða. Hún var þá 18 megawött og sett í biðflokk. Reyndar voru áður hugmyndir um enn stærri virkjun eða 36 megawatta.

„Og síðan þegar við fórumn að skoða hana þá skoðuðum við virkjun sem var 18 megawött. Og svo núna höfum við þróað lausn í samstarfi við heimamenn og sveitarfélagið sem er 9,9 megawött,“ segir Eiríkur Bragason framkvæmdastjóri Íslenskrar vatnsorku.

Umhverfismat er til fyrir stærri útgáfu að virkjuninni og nú er unnið að því að klára það með breytingum. Fyrirtækið er líka að skoða möguleika til nýtingar nýrrar tækni við jarðvarmavirkjanir sem gerir kleift að nýta kaldara vatn en áður hefur verið nýtt hér með svokallaðri tvívökvajarðhitavél.  

„Og það opnar möguleika að setja upp svona litlar jarðhitavirkjanir þar sem er afgangsvarmi frá núverandi rekstri eða þá með því að nýta minni hitasvæði eða meðalhitasvæði alveg jafnvel lághitasvæði.“ 

Sýnist þér það að þeir sem eru í þessum bransa séu að horfa til þessarra smærri virkjana sem eru undir 10 megawöttum og þá kannski ekki háðar rammaáætlun?

„Þetta er eiginlega bara að gerast um alla Evrópu. Tími stóru virkjanana er svona, ekki kannski alveg liðinn, en svona í vatnsaflsorkuverum og jarðhitavirkjunum þá er þetta orðið náttúrulega orðið svolítið erfitt að fara áfram með slík verkefni og það opnar þá á möguleikann fyrir minni virkjanir.“ 

Eyþór Arnalds oddviti sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningar var hluthafi í Íslenskri vatnsorku og er enn skráður stjórnarformaður samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins. Hins vegar er hann ekki lengur lengur hluthafi, segir Eiríkur. Á vef Stundarinnar 14. janúar síðast liðnn þegar Eyþór var í framboði að leiða listann sagðist hann myndu hætta öllum afskiptum af stjórnum fyrirtækja yrði hann oddviti. 

Þessi frétt hefur verið leiðrétt en í fyrri útgáfu var sagt að Eyþór væri hluthafi í Íslenskri vatnsorku.