Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hagar hefja heildsölu áfengis

12.01.2016 - 14:37
Selfoss Rafmagnslínur Rafmagnslína náttúra
 Mynd: Jónsson Jónsson - Jóhannes Jóhannes
Hagar, sem reka meðal annars Hagkaup og Bónus, undirbúa nú heildsölu áfengis. Þetta staðfestir Finnur Árnason, forstjóri Haga. Hann segir slíkt hafa verið til skoðunar um nokkurt skeið og fyrirtækið sé betur í stakk búið fari svo að frumvarp um að leyfa almenna smásölu áfengis verði samþykkt.

„Það hefur verið til skoðunar í nokkur ár,“ segir Finnur aðspurður um heildsölu Haga á áfengi. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, staðfestir að stofnanasamningur hafi verið gerður við Haga verslanir ehf, dótturfélag Haga og að fyrirtækið sé með vörur í umsóknarferli.

Aðspurður hvort að heildsala Haga tengist áfengisfrumvarpinu svokallaða sem nú liggur fyrir Alþingi segir Finnur: „Ég tel okkur betur undirbúin með þessum undirbúningi, já.“

Hagar er stærsta smásölufyrirtæki landsins og rekur líkt og fyrr sagði verslanir Bónus og Hagkaups. Þá rekur Hagar heildsölurnar Bananar ehf. og Aðföng auk fjölda fatafyrirverslana svo sem Zara, Debenhams og Topshop.

Frumvarp þess efnis að sala áfengis verð gefin frjáls vart lagt fyrir á síðasta og þar síðasta þingi. Frumvarpið hefur enn ekki verið afgreitt. Það bíður annarrar umræðu eftir breytingartillögu.

Frumvarpið hefur þótt nokkuð umdeilt og heitar umræður skapast á þingi og víðar. Læknafélag Ísland hefur lagst gegn frumvarpinu og 67% landsmanna voru gegn frumvarpinu þegar Fréttablaðið gerði könnun í október árið 2014.