Hafró: Þorskveiði verði aukin um 6%

13.06.2017 - 12:49
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: - - wikipedia.org
Flestir fiskistofnar við Ísland dafna vel, sérstaklega þorskur, ýsa og ufsi. Hafrannsóknastofnun leggur til að þorskveiði verði aukin um sex prósent á næsta fiskveiðiári. Humarstofninn stendur verr, lagt er til að veiðar á honum verði dregnar saman um tólf prósent. 

 

Hafrannsóknastofnun kynnti í morgun ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Stofnunin mælir ástand 34 tegunda á Íslandsmiðum, og leggur mat á vistkerfi sjávar og aðra áhrifaþætti.

„Almennt talað er ástand gott. Það hefur tekist að ganga um þessa nytjastofna okkar af varúð, og við erum að uppskera eftir því,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar. „En auðvitað eru breytingar, bæði jákvæðar og neikvæðar. Það er helst sumargotssíldin sem er að minnka vegna sýkingar, en heilt yfir lítur þetta nokkuð vel út.“

Gleðitíðindi í þorskstofninum

Mikilvægasti stofninn fyrir efnahag landsins er þorskurinn, og hann stendur betur en búist var við í fyrri spám. 

„Við sjáum að stofninn heldur áfram að stækka,“ segir Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnsjávarlífríkissviðs Hafrannsóknastofnunar. „Gleðitíðindin eru þau að stækkunin er ekki bara vegna þess að dregið hefur úr sókn og hver fiskur er að stækka, heldur er líka aukin nýliðun að koma inn í stofninn. Næstu tveir árgangar eru nálægt meðalnýliðun, sem við höfum ekki séð mörg undanfarin ár, þannig að það eru ágætis horfur í þorskstofninum á næstu árum.“

Stofnunin leggur til að þorskveiði verði aukin um 6% á næsta fiskveiðiári, í 257.572 tonn. Veiðar á ýsu verði auknar um 20%, í 41.390 tonn, og á ufsa um 10%, í 60.237 tonn.

Helstu blikur eru á lofti í uppsjávarstofnunum, talið er að 25-47% af íslensku sumargotssíldinni sé sýkt af frumdýrinu ichtyophonus, og óvissa ríkir um loðnustofninn. Þá er humarstofninn í lægð, og leggur hafrannsóknastofnun til að kvótinn verði minnkaður um 12% á næsta fiskveiðiári.

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi