Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Haförn gæti numið landið allt

04.03.2015 - 15:42
Fullorðinn haförn við Steitishvarf milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar. Myndina tók Yann Kolbeinsson 14. nóvember 2014.
 Mynd: Yann Kolbeinsson - RÚV
Haförn hefur ítrekað sést á Suðausturlandi undanfarna mánuði og gerði sig heimakominn í fjárhúsi á bænum Krossi í Berufirði að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

„Það hafa verið einn eða tveir á Suðausturlandi síðan í haust en þetta gæti verið sami einstaklingurinn," segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Kristinn Haukur segir að heimsókn arnarins sé óvenjuleg. „Þetta eru óvenju margar athuganir og ég man ekki eftir því á síðustu árum að fugl hafi sést í svo langan tíma."

Hann segir að haförnum hafi fækkað mikið upp á aldamótum 1900 þegar menn fóru að bera út refaeitur. Þeir sjáist árlega á Suðausturlandi en síðasta arnaparið þar verpt  í Melrakkanesi milli Álftafjarðar og Hamarsfjarðar en hafi hætt varpi þar um 1920. „Nú er stofninn að taka við sér og að verða álíka stór og um 1910 en hann breiðist hægt út á þessi fornu heimkynni. Það hefur ekki verið arnarvarp á Austur- eða Norðurlandi í  heilanmannsaldur en þeir sjást sem gestir," segir Kristinn Haukur. 

Hann telur að enn sé rúmt um örninn á Vesturlandi þó að varpið sé orðið þéttara en áður. Þar séu bestu skilyrðin fyrir haförn nálægt grunnsævi en örnin gæti vel lifað af á bæði Norður- og Austurlandi. „Hann aflar sér matar fyrst og fremst við ströndina og þar er auðveldast að veiða. En hann ætti hæglega að geta numið land þar að nýju; það er bara tímaspursmál." Hann bætir við að fuglinn sem sest hefur á Suðausturlandi sé fullorðinn fugl en ekki ungfugl sem flækist frekar um landið. Það sé góðs viti og nú þurfi hann bara að hitta fyrir fugl af gagnstæðu kyni.

Myndina hér að ofan tók Yann Kolbeinsson af haferninum 14. nóvember 2014 þar sem hann settist á þúfu við Streitishvarf milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar.