Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hafnfirðingar ósáttir og vilja skýringar

11.05.2015 - 13:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hafnarfjarðarbær hefur krafið forsvarsmenn Strætó um greinargerð og áætlun um kostnað við Ferðaþjónustu fatlaðra það sem eftir er ársins. Bæjaryfirvöld óttast að kostnaðurinn geti farið 132 milljónir fram úr áætlun. Ekki er útilokað að bærinn segi upp þessari þjónustu og taki hana aftur til sín.

Fulltrúar Strætó og Hafnarfjarðarbæjar áttu fund í síðustu viku þar sem fulltrúar bæjarins kröfðu forsvarsmenn Strætó um skýr svör.  

Það er sérstaklega kostnaðurinn sem fer fyrir brjóstið á bæjaryfirvöldum. Í fundarpunktum, sem kynntir voru á fundi fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar í morgun, kemur fram að kostnaður Hafnarfjarðar fyrstu þrjá mánuði ársins nemi 51 milljón. Bærinn hafði gert ráð fyrir 73 milljónum allt árið en með sama áframhaldi stefnir sá kostnaður í 205 milljónir. 

Fram kemur í fundarpunktunum að kostnaður hjá Reykjavík hækki ekki og að ekki liggur fyrir hversu mikil hækkunin sé hjá hinum sveitarfélögunum. Þar segir einnig að kostnaður Strætó þegar „kerfið fór á hliðina“ hafi verið óverulegur - reikningar vegna leigubíla hafi til að mynda numið 6 til 8 milljónum.

Í lok fundarins óskaði Hafnarfjarðarbær eftir skýringum frá Strætó, meðal annars hvernig sveitarfélögin væru að koma út varðandi kostnað og upplýsingum um fjölda notenda hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Bærinn krefst þess að þessar upplýsingar liggi fyrir í næstu viku en þá standi til að ræða málið á bæjarráðsfundi.

Bæjaryfirvöld virðast ekki útiloka þann möguleika að segja þjónustunni upp og taka hana aftur til sín. Í mars var greint frá því að útgjöld bæjarins gætu aukist um 80 milljónir vegna ferðaþjónustu fatlaðra. Bærinn þurfti þá að greiða tvöfalt meira fyrir þjónustuna í janúar en í fyrra.