Hafnarfjarðarbær getur ekki rift samningi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hafnarfjarðarbær hefur rætt við Blindrafélagið um að taka að sér akstursþjónustu fyrir fatlað fólk í stað Strætó. Samkvæmt lögfræðiáliti getur bærinn þó ekki sagt sig úr samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um ferðaþjónustu fatlaðra fyrirvaralaust.

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði eru afar ósátt við hversu mikið kostnaður við ferðaþjónustu fatlaðs fólks hefur aukist eftir að Strætó tók við þjónustunni. Bærinn leitaði lögfræðiálits á því hvort hægt væri að rifta samningi sveitarfélaganna um þjónustuna þar sem forsendur hans hefðu ekki staðist. Á fundi fjölskylduráðs Hafnarfjarðar á föstudaginn var álitið lagt fram, ásamt minnisblaði frá sviðsstjóra fjölskylduþjónustu bæjarins.

Í lögfræðiálitinu kemur fram að þótt svo virðist sem forsendur um þjónustustig hafi ekki staðist í meginatriðum sé ekki raunhæft að rifta samkomulagi sveitarfélaganna um þjónustuna, enda er Strætó ekki aðili að því samkomulagi. Tvær aðrar leiðir séu færar. Annars vegar að bærinn sé áfram aðili að samkomulaginu en Strætó sjái ekki lengur um ferðaþjónustu fatlaðra fyrir Hafnarfjarðarbæ. Hins vegar að bærinn ræði við sveitarfélögin um uppsögn samkomulagsins að hluta eða öllu leyti.

Í minnisblaði sviðsstjóra fjölskylduþjónustunnar kemur fram að bæjarstjóri hafi verið í viðræðum á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um breyttar kostnaðarforsendur ferðaþjónustunnar en ekki hafi náðst samkomulag milli sveitarfélaganna um nýja skiptingu. Þá kemur einnig fram að rætt hafi verið við Blindrafélagið um að taka að sér ferðaþjónustu fyrir Hafnarfjarðarbæ. Lögfræðiálitið segir þó að bærinn geti ekki samið við félagið fyrr en hann hafi dregið sig úr samstarfi sveitarfélaganna um ferðaþjónustuna.

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar fól sviðsstjóranum að meta fyrirkomulag þjónustunnar og skoða hvernig hún verði best tryggð til framtíðar með hagsmuni notenda og sveitarfélagsins að leiðarljósi.

Guðlaug Kristjánsdóttir formaður fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar segir að ekki verði farið í breytingar nema að lokinni ítarlegri skoðun. Kostnaðurinn hafi hins vegar ríflega tvöfaldast sem sé alltof mikið, og það verði að skoða hvort hægt sé að halda uppi góðri þjónustu fyrir minni kostnað.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi