Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hafnar því að hafa slitið viðræðum

18.12.2013 - 21:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdatjórn Evrópusambandsins hafnar því að hafa slitið viðræðum um aðild Íslendinga að Evrópusambandinu. Forsætisráðherra gaf í skyn að ákvörðun ESB um að fella niður IPA styrki fæli í sér að ESB hefði slitið viðræðunum.

Evrópusambandið ákvað í byrjun mánaðarins að hætta öllum IPA styrkjum til íslenskra verkefna. Forsætisráðherra var spurður um álit hans á því hvaða skilaboð sú ákvörðun fæli í sér. „Hins vegar má líta svo á að Evrópusambandið hafi sent Íslendingum þau skilaboð að það líti svo á að viðræðum Íslands við Evrópussambandið sé lokið með ákvörðun sem Evrópusambandið tók varðandi IPA styrkina.“

Pia Ahrenkilde Hansen, talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kveður fast að orði í pósti til fréttastofu og segir að sambandið sé ekki búið að slíta aðildarviðræðum við íslensk stjórnvöld.  Það sé skoðun framkvæmdastjórnarinnar að það sé beggja hagur að Ísland gangi í ESB og að ESB sé til búið til að hefja viðræður á ný hvenær sem er vilji Íslendingar taka upp þráðinn. Þetta viðhorf er endurtekið á fleiri en einum stað í bréfinu.

Hvað IPA styrkina snertir segir Hansen að íslenskum stjórnvöldum hafi verið kynnt afstaða framkvæmdastjórnarinnar um að ekki sér rétt að halda áfram að greiða IPA styrkina á meðan málin séu í biðstöðu enda sé tilgangur styrkjanna að styrkja aðildarviðræðurnar.