Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafnar þrýstingi vegna þriðja orkupakkans

29.10.2018 - 19:35
Mynd: RÚV / RÚV
Forsætisráðherra Noregs, Erna Solberg, hafnar því að hafa beitt íslensk stjórnvöld þrýstingi til að samþykkja þriðja orkupakkann, svokallaða. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, segir að skoða þurfi málið vel áður en það verður tekið fyrir á þingi. Árlegt þing Norðurlandaráðs verður sett í Ósló á morgun. Forsætisráðherrar Íslans og Noregs funduðu í dag.

„Þetta var prýðilegur fundur og við ræddum þau mál sem við vinnum saman að, málefni hafsins, Norðurskautsráðið en líka verkefnin fram undan eins og Brexit, ESB og EES-mál sem bíða úrlausnar,“ segir Solberg.

Eitt af því er þriðji orkupakkinn svokallaði, orkupakki Evrópusambandsins sem nefnd á vegum EES ákvað í fyrra að fella inn í EES-samninginn. EFTA-ríkin þrjú sem eiga aðild að EES settu þann fyrirvara að samþykki þjóðþinga ríkjanna þriggja yrði að liggja til grundvallar. Norðmenn hafa þegar samþykkt pakkann, sem og Liechtenstein, en hann tekur ekki gildi nema Ísland samþykki hann líka. „Við erum á einum markaði og það er snúið að standa utan stofnana sem taka ákvarðanirnar og við vonum því að það finnist lausn hvað Ísland snertir svo að við getum fullnægt þessum þáttum samninganna,“ segir norski forsætisráðherrann.

„Þau hafa lagt mikla áherslu á þetta mál og eru auðvitað í annarri stöðu en Ísland þar sem þau eru auðvitað með sæstrengi til að mynda til annarra landa og EES-samstarfið líka. Þetta er hluti af EES-samstarfinu sem skiptir öll þessi lönd miklu máli,“ segir Katrín.

Katrín segir að málið verði tekið fyrir á Alþingi í febrúar. Solberg segir þær ekki hafa rætt hvaða staða komi upp hafni Alþingi þriðja orkupakkanum. „Við erum ekki með varaáætlun. Ég vona að Íslendingar sjái að til að þessu verði fylgt eftir og samþykkt,“ segir Solberg.

Norski Miðflokkurinn, Senterpartiet, er einn þeirra sem hafa sakað norsk stjórnvöld um að beita þau íslensku þrýstingi í málinu. Solberg segir það af og frá. „Við höfum ekki þrýst á en bent á það að það eru fleiri sem standa að EES-samningnum. Málið er mikilvægt fyrir Noreg en svo er Miðflokkurinn á móti EES-samningnum og flokkurinn hefur mikið látið til sín taka á Íslandi svo að Íslendingar verði á móti og þá gegn norskum hagsmunum.“

Forsætisráðherrarnir hitta aðra norræna kollega sína í kvöld og á morgun. „Og þegar maður hittir kollegana þá skiptumst við á reynslusögum í stjórnmálunum því þeir eru ekki margir sem hægt er að deila reynslunni með. Það er ætíð það áhugaverðasta,“ segir Katrín.