Hafnar stöðvunarkröfu Landverndar

25.11.2016 - 01:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Kröfu Landverndar um stöðvun framkvæmda Landsnets við byggingu Kröflulínu 4 í landi Skústaðahrepps var hafnað af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í dag. Þetta kemur fram á mbl.is.

Nefndin taldi almennt of viðurhlutamikið að stöðva framkvæmdir á þeim grundvelli einum að umhverfi yrði raskað, segir á mbl.is. Jafnvel þó umtalsvert rask yrði á umhverfi og það njóti sérstakrar verndar af einhverjum orsökum. Það myndi leiða til þess að flestar framkvæmdir sem sæta mati á umhverfisáhrifum yrðu stöðvaðar án þess að frekari skoðunar þyrfti við.

Skútustaðahreppur veitti Landsneti framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 rétt fyrir síðustu mánaðamót. Fyrra framkvæmdaleyfi hafði verið fellt úr gildi eftir kæru Landverndar og Fjöreggs. Landvernd kærði nýja framkvæmdaleyfið sjöunda nóvember á þeim forsendum að umhverfismat hafi átt að fara fram á fleiri þáttum en Landsnet hafði látið gera.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi