Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hafnar bótakröfum vegna hafnargarðs

18.12.2015 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunar, hafnar skaðabótakröfum verktaka upp á hálfan milljarð króna vegna flutnings og endurbyggingar hafnargarða við Austurbakka í Reykjavík. Sú fjárhæð sé talnaleikur sem hafi ekkert gildi.

Landstólpi þróunarfélag hyggst krefja ríkissjóð um að minnsta kosti hálfan milljarð króna, vegna kostnaðar við að flytja og endurbyggja gamla og yngri hafnargarðinn við Austurbakka. Minjastofnun hafnar kröfu félagsins.

Kristín Huld Sigurðardóttir er forstöðumaður Minjastofnunar. Hún segir að sambærilegt mál hafi ekki komið upp áður hérlendis. „En það var vitað alveg þegar að þeir fóru í framkvæmdir að það myndu koma í ljós fornminjar þarna á svæðinu,“ segir Kristín Huld. „Við venjulegar aðstæður þá mega framkvæmdaraðilar vænta þess að við tökum ekki ákvarðanir fyrr en fornleifafræðingarnir eru búnir að vinna verkið og við erum búin að fá skýrslur þannig að þarna erum við í raun og veru að flýta fyrir þessum aðilum.“

Hún segir að allt tal um að seinkun hafi orðið á verkinu eigi því ekki við nein rök að styðjast. Verktakarnir vilji nýta minjarnar í hönnuninni og það hafi ávallt staðið til. „Og það tíðkast og það er bara í lögunum að framkvæmdaraðilar þeir bera þann kostnað.“ Minjastofnun hafnar því alfarið kröfu verktakanna um bætur. „Og þetta er það sem framkvæmdaaðilar í miðbænum mega eiga vona á að það komi upp minjar og að við setjum kröfur á þá,“ segir Kristín Huld. „Og þeir verða þá að gera ráð fyrir því í sínum kostnaðaráætlunum. Já það er bara þannig því miður.“

Það kosti sitt að halda í söguna en 500 milljónir vegna þessa sé ofmat. „Þetta er bara tala sem að hefur ekkert gildi. Þetta er bara talnaleikur. Það er ekkert öðruvísi. Ég bara blæs á þennan hálfa milljarð.“

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV