Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafnaði tilboði um að starfa eitt ár í viðbót

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hefur ákveðið að auglýsa eftir sveitarstjóra. Varaoddviti sveitarstjórnar segir meirihlutann telja það faglegast. Ekki náðist samkomulag við núverandi sveitarstjóra um tímabundna ráðningu.

Eiríkur H. Hauksson var ráðinn sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps eftir síðustu kosningar. Ráðningin var umdeild og meðal annars var gagnrýnt að staðan skyldi ekki auglýst.

Í kjölfar nýafstaðinna kosninga hóf sveitarstjórn viðræður við Eirík og bauð honum 12 mánaða ráðningarsamning. Bæði til að brúa bilið fram að ráðningu nýs sveitarstjóra og til að sinna verkefnum við uppbyggingu nýs íbúðahverfis á Svalbarðseyri. Eiríkur hafnaði því. 

Á fundi sínum í morgun samþykkti sveitarstjórn síðan að auglýsa eftir sveitarstjóra. Tillaga þess efnis var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur. Í bókun minnihlutans af því tilefni er hörmuð sú ákvörðun meirihlutans að slíta viðræðum um tímabundna ráðningu Eiríks. Sú ákvörðun stuðli ekki að hag sveitarfélagsins og setji í uppnám hugmyndir um þá uppbyggingu sem átt hafi sér stað á undaförnum misserum. „Við óttumst mjög að vanstjórnað tímabil fari í hönd á næstu mánuðum þegar mest er þörf á að sinna nýjum mikilvægum og mjög kostnaðarsömum verkefnum varðandi nýja hverfið,“ segir orðrétt í bókuninni.

Aðspurð af hverju sveitarstjórn hafi ekki endurnýjað samninginn við Eirík um starf sveitarstjóra, segir Anna Karen Úlfarsdóttir varaoddviti sveitarstjórnar, að nýjum meirihluta hafi fundist faglegast að auglýsa stöðuna. Það sé sú stefna sem tekin hafi verið. Það tengist ekki umræðunni um ráðninguna fyrir fjórum árum og deilunum sem þá stóðu. Þetta sé enginn dómur um störf Eiríks sem sveitarstjóra og honum sé frjálst að sækja um stöðuna eins og hverjum öðrum.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV