Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafna umsóknum um siglingar á Jökulsárlóni

12.07.2018 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur hafnað umsóknum fjögurra fyrirtækja um að hefja siglingar á Jökulsárlóni því hvorki liggur fyrir stjórnunar- og verndaráætlun né skipulag fyrir svæðið.

Fjallað var um umsóknir fyrirtækjanna fjögurra á fundi stjórnar þjóðgarðsins 12. júlí. Samkvæmt 1. málsgrein 15. greinar laga númer 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð má ekki reka neina atvinnustarfsemi þar án þess að samningur um slíkt sé gerður við þjóðgarðinn.

Samkvæmt tilkynningu frá stjórninni er gríðarlegt álag á svæðinu sem eykst hröðum skrefum. Árið 2014 sóttu 350 þúsund manns Jökulsárlón heim en 800 þúsund manns í fyrra. Á sumardegi má búast við allt að því fjögur þúsund manns á einum degi.

Stjórnin telur mikilvægt að vinna verði hafin sem fyrst við gerð nýs deiliskipulags við Jökulsárlón í samstarfi við sveitarfélagið Höfn sem og vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir svæðið. Þannig færist Jökulsárlón og nálæg svæði sem flutt voru undir Vatnajökulsþjóðgarð á síðasta ári með friðlýsingu inn í stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins.