Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hafna tilboði Rússa

24.10.2015 - 14:22
epa04991411 A handout picture dated 22 October 2015 made available on the official website of the Russian Defence Ministry shows Russian SU-25 strike fighters at the Syrian Hmeymim airbase, outside Latakia, Syria. Russia has been carrying out airstrikes
 Mynd: EPA - RUSSIAN DEFENCE MINISTRY
Uppreisnarhópar í Sýrlandi, sem njóta stuðnings vesturveldanna, hafa hafnað tilboði Rússa frá í morgun um að rússneski flugherinn veiti þeim aðstoð í sókn þeirra gegn Íslamska ríkinu. Þá vísa þeir á bug kröfum Rússa um nýjar kosningar í Sýrlandi.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í morgun að flugher Rússa væri reiðubúinn að veita uppreisnarmönnum í Frelsisher Sýrlands og fleiri hófsömum uppreisnarsamtökum aðstoð í sókn þeirra gegn Íslamska ríkinu. Flugherinn gæti gert loftárásir á vígasamtökin meðan uppreisnarmenn væru að sækja fram. Þá hvatti hann einnig fulltrúa uppreisnarmanna til viðræðna við stjórnvöld í Sýrlandi um framkvæmd nýrra þing- og forsetakosninga í landinu. Lavrov átti í gær fund í Vínarborg í Austurríki með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þar sem þeir ræddu hvernig mætti semja um vopnahlé til að binda enda á borgarastyrjöldina í Sýrlandi, sem staðið hefur síðan 2011 og kostað rúmlega 250 þúsund manns lífið.

Rússar hafa síðan í lok september gert loftárásir á vígi Íslamska ríkisins í Sýrlandi. Vesturveldin og uppreisnarhópar í landinu hafa sakað Rússa um að gera í leiðinni árásir á uppreisnarhópa andsnúna Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

AFP-fréttaveitan hefur eftir Ahmad Saoud, liðsforingja í uppreisnarhópnum Herdeild 13, að uppreisnarhópar hafi hafnað tilboði Rússa um aðstoð og vísað á bug hugmyndum þeirra um kosningar í landinu.

„Rússar gera loftárásir á Frelsisher Sýrlands og nú vilja þeir vinna með okkur meðan þeir eru búnir að binda stuðning sinn við Assad,“ segir Saoud. „Við skiljum Rússa alls ekki.“

Sýrlenska þjóðarbandalagið, helstu stjórnmálasamtök stjórnarandstæðinga í Sýrlandi, hafnar einnig samstarfinu við Rússa.

„Í stað þess að tala um vilja sinn til að styðja Frelsisher Sýrlands, ættu Rússar að hætta að varpa sprengjum á hann,“ segir Samir Nashar, félagi í Sýrlenska þjóðarbandalaginu, í viðtali við AFP-fréttaveituna. Hann segir að fjórar af hverjum fimm loftárásum Rússa beinist gegn Frelsishernum.

Nashar segir tillögur Rússa um nýjar kosningar fráleitar. Moskvustjórn sé að reyna að fara framhjá kröfum Sýrlendinga um að Assad víki úr embætti. Þá horfi þeir framhjá ástandinu í landinu. Milljónir séu landflótta og borgir og borgarhlutar eyðilagðar í árásum nær daglega.

„Hvers konar kosningar á að halda undir þeim kringumstæðum?" spyr Nashar.

Forsetakosningar voru síðast í Sýrlandi í júní 2014. Assad var þá endurkjörinn forseti til 7 ára með 88,7% atkvæða. Stjórnarandstaðan vísaði úrslitum kosninganna á bug og alþjóðasamfélagið fordæmdi framkvæmd þeirra.

Þingkosningar voru síðast í Sýrlandi í maí 2012 og á því að kjósa næst til þings 2016.

Guðjón Helgason
Fréttastofa RÚV