Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafna ráðningu sveitarstjóra í Langanesbyggð

26.06.2018 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: www.langanesbyggd.is - Langanesbyggð
Minnihlutinn í sveitarstjórn Langanesbyggðar hefur hafnað ráðningu Elíasar Péturssonar í starf sveitarstjóra og leggur til að nýr sveitarstjóri verði ráðinn. Minnihlutinn hafði það á stefnuskrá fyrir kosningar að ráða nýjan sveitarstjóra.

Elías var sveitarstjóri í Langanesbyggð á síðasta kjörtímabili og nýr meirihluti ákvað að endurráða hann. Drög að nýjum ráðningarsamningi voru lögð fram til samþykktar á síðasta fundi sveitarstjórnar og voru samþykkt með fjórum atkvæðum meirihlutans, en allir þrír fulltrúar minnihlutans greiddu atkvæði á móti.

Fulltrúar tveggja lista skipa sveitarstjórn í Langanesbyggð, I-listi er í meirihluta, en U-listi í minnihluta. Siggeir Stefánsson, oddviti U-lista, lagði fram bókun á fundinum þar sem ráðningu Elíasar er hafnað. Þá eru gerðar athugasemdir við ráðningarsamninginn og talið að þar séu atriði sem þurfi að breyta. Einnig séu þar atriði sem ekki séu nógu skýr. „Til að ná fram sátt í sveitarstjórn og við getum orðið við kröfum íbúa Langanesbyggðar þar um, leggur U-listinn til að nýr sveitarstjóri verði ráðinn," segir orðrétt í bókum U-listans.

Á síðasta kjörtímabili lýsti U-listinn yfir vantrausti á Elías sem sveitarstjóra og taldi að framkvæmdastjórn sveitarfélagsins væri ábótavant. Þá hafði listinn það á stefnuskrá sinni fyrir sveitarstjórarkosningarnar í maí að ráða nýjan sveitarstjóra.