Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafna niðurstöðum skýrslu SÞ

29.08.2018 - 03:56
Erlent · Asía · Mjanmar · Róhingjar
epa06305794 YEARENDER 2017 OCTOBER
Róhingjar á flótta frá Mjanmar til nágrannaríkisins Bangladess. Mynd: EPA Images
Stjórnvöld í Mjanmar hafna niðurstöðum úr skýrslu Sameinuðu þjóðanna, þar sem herinn er sagður hafa framið þjóðarmorð á Róhingjum. Talsmaður stjórnvalda segir starfshópi Sameinuðu þjóðanna aldrei hafa verið hleypt inn í landið og því geti þau ekki sætt sig við niðurstöðurnar, eða tilskipanir frá mannréttindaráði SÞ.

Þetta eru fyrstu opinberu viðbrögð stjórnvalda í Mjanmar síðan skýrslan var gefin út á mánudag. Sameinuðu þjóðirnar sendu hóp á sínum vegum til að rannsaka áhlaup stjórnarhersins gegn minnihlutahópi Róhingja í fyrra. Yfir 700 þúsund Róhingjar flúðu yfir landamærin til Bangladess, en þeir hafa smám saman verið að tínast aftur yfir til Mjanmar. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna segir að stjórnarherinn hafi framið stórtækt þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyninu í aðgerðum sínum gegn Róhingjum. Kallað var eftir því í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær að hershöfðingjar í Mjanmar verði dregnir fyrir alþjóðlega dómstóla vegna glæpanna. 

Zaw Htay, talsmaður stjórnvalda í Mjanmar, segir af og frá að niðurstöður skýrslunnar verði teknar til greina þar í landi. Sameinuðu þjóðirnar hafi aldrei fengið leyfi til rannsóknarinnar. Sérstök rannsóknarnefnd var sett á laggirnar í Mjanmar til þess að svara tilhæfulausum ásökunum stofnana Sameinuðu þjóðanna, sagði hann. Þá átaldi hann einnig Facebook fyrir að loka á síður hershögðingja og annarra hátt settra stofnana í her landsins. Facebook hefur áður beðist velvirðingar á því að hafa brugðist of seint við. Samfélagsmiðillinn er mjög vinsæll í Mjanmar, og var mikið notaður til að dreifa áróðri og hatursorðræðu í garð Róhingja.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV