Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hafna hugmyndum um lágmarksstærð sveitarfélaga

03.10.2017 - 03:17
Mynd með færslu
Grenivíkurskóli Mynd: Grenivík.is
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps segir engin rök fyrir því að lágmarksstærð sveitarfélaga eigi að vera þúsund íbúar, eins og lagt er til í nýrri skýrslu um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga. Í bókun sveitarstjórnar segir að þúsund manna sveitarfélag sé ekki betur í stakk búið en fimm hundruð manna sveitarfélag til að sinna grunnþjónustu við íbúa eða taka við verkefnum frá ríkinu.

Vanfjármögnun ríkisins á stórum málaflokkum verði heldur ekki leyst með því að sameina smá sveitarfélög og tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga verði heldur ekki leiðrétt þannig. Sameining og/eða samstarf sveitarfélaga verður að byggjast á fjárhagslegum, félagslegum og landfræðilegum forsendum en ekki bara á höfðatölu, segir í ályktun sveitarstjórnarinnar, enda engin „rétt“ tala til fyrir lágmarks íbúafjölda í íslenskum sveitarfélögum.

Í niðurlagi bókunarinnar hafnar sveitarstjórn Grýtubakkahrepps „hugmyndum um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga og hvetur ráðamenn til að virða hagsmuni íbúa og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum.“

352 voru skráð með lögheimili í Grýtubakkahreppi þann 1. janúar 2017.

Bókun sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps í heild sinni

„Vegna kynningar á skýrslu um „stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga“ og þá megin niðurstöðu að lágmarksstærð sveitarfélaga skuli verða 1.000 íbúar er eftirfarandi bókað samhljóða:

Skýrslan er skrifuð til að rökstyðja sameiningar sveitarfélaga undir þeim formerkjum að til þess að geta sinnt grunnþjónustu við íbúa og í framtíðinni tekið við fleiri verkefnum frá ríkinu, þurfi sveitarfélög að vera stór og öflug, með traust og faglegt stjórnkerfi.  Fyrir því að lögfesta 1.000 íbúa lágmarksstærð sveitarfélaga finnast hinsvegar engin rök, hvorki í skýrslunni né annarsstaðar.  Enda er sveitarfélag með liðlega 1.000 íbúa afar litlu eða engu betur sett í þessu tilliti en t.d. 500 manna sveitarfélag.  Þá er töluverð umfjöllun um hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og lagt til að hann sé nýttur til að stuðla að sameiningum með fjárhagslegum hvötum.

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps bendir á;

  • Að almennt er fjárhagsstaða minni sveitarfélaga betri en hinna stærri.
  • Að vanfjármögnun ríkisins á stórum málaflokkum verður ekki leyst með sameiningu smárra sveitarfélaga.  Tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga verður heldur ekki leiðrétt þannig.
  • Að vandamál á einum stað leysast ekki með sameiningum annarsstaðar.  Vandamál ber að leysa þar sem þau eru til staðar, hvort sem eru brotalamir í þjónustu, t.d. leikskólaþjónustu eða fjárhagsvandræði af ýmsum orsökum.
  • Að 1 kílómetri er áfram 1000 metrar þó sveitarfélög séu sameinuð og sameiningar leysa ekki þjónustuvanda eða neikvæða byggðaþróun í dreifbýli einar og sér.
  • Að mörg minnstu sveitarfélögin fá mikið minni framlög pr. íbúa frá Jöfnunarsjóði en stór, jafnvel áður sameinuð sveitarfélög.
  • Að hlutverk Jöfnunarsjóðs er að verulegum hluta farvegur fyrir fjármögnun verkefna en ekki bara jöfnun fjárhagsstöðu.  Verkefni verða ekki sjálfkrafa ódýrari eða auðleystari við sameiningu sveitarfélaga, nema þá að dregið sé úr þjónustu við íbúana.

Þá er í skýrslunni talað um lítið íbúalýðræði og lýðræðishalla sem fylgi samstarfsverkefnum minni sveitarfélaga.  Það er því ákveðin þversögn að í minni sveitarfélögum er lýðræðisleg virkni íbúa mun meiri og nánd þeirra við kjörna fulltrúa og skrifstofur sveitarfélaga einnig, skv. íbúakönnun sem skýrslunni fylgir.  Til að reyna að ná slíkri stöðu aftur er því mælt með hverfisráðum og ýmsum rafrænum aðgerðum í stærri sveitarfélögum. 

Skýrslan gengur útfrá því að það sé lýðræðislegur réttur íbúa að hafa árhif og stýra málum er varða þeirra nærmálefni.  Undir það er tekið heilshugar.

Ef niðurstöður væru eitthvað í takt við innihald skýrslunnar um stór og öflug sveitarfélgög með mikla getu til að taka við nýjum verkefnum og veita þjónustu ein og sjálf, þá hefði mátt búast við tillögu um lágmarksfjölda íbúa a.m.k. 10.000, ef ekki 25.000.  En í raun er viðurkennt að slíkt gangi ekki upp vegna landfræðilegra aðstæðna á Íslandi.  Enda yrðu slík sveitarfélög sum mjög víðfeðm, margkjarna, erfið í stjórnun og gætu nánast orðið eins og 3ja stjórnsýslustigið á stórum landssvæðum.  Þar með er allt komið í hring og endanleg niðurstaða hvorki fugl né fiskur. 

Enda væri auðvelt að rökstyðja með nákvæmlega samsvarandi skýrslu, að það sé ekki vænlegt að reka þjóðfélag til framtíðar með 330 þúsund íbúum og Ísland ætti því að sameinast öðru landi.

Sameining og/eða samstarf sveitarfélaga verður að byggjast á fjárhagslegum, félagslegum og landfræðilegum forsendum en ekki bara á höfðatölu.  Fyrst og síðast á þó vilji íbúa að ráða ferð svo sem verið hefur.  Engin „rétt“ tala er til fyrir lágmarks íbúafjölda í sveitarfélögum á Íslandi.

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hafnar alfarið hugmyndum um lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga og hvetur ráðamenn til að virða hagsmuni íbúa og sjálfsákvörðunarrétt í eigin málefnum.“

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV