Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hafna beiðni Landsnets um yfirráð yfir jörðum

06.03.2016 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur hefur hafnað beiðni Landsnets um að fá yfirráð yfir fjórum jörðum vegna Suðurnesjalínu II. Í maí 2015 úrskurðaði hæstiréttur að Landsnet væri óheimilt að hefja framkvæmdir á öðrum jörðum sem fyrirtækið hafði fengið yfirráð yfir.

Héraðsdómur Reykjaness hafnaði á fimmtudag beiðni Landsnets hf. um að fá yfirráð yfir fjórum jörðum á Reykjanesi. Aðfarargerð Landsnets byggir á heimild sem veitt var af innanríkisráðuneytinu í febrúar 2014. Landsnet hyggst leggja 46 metra breytt háspennubelti um jarðirnar auk 6 metra breiðs vegslóða.

Málið tengist lagningu svokallaðrar Suðurnesjalínu II en Landsnet áætlar að hefja framkvæmdir við hana í næstu viku. Miklar deilur hafa staðið þar sem landeigendur una ekki ákvörðun ráðuneytisins. Suðurnesjalína II á meðal annars að flytja rafmagn til tveggja nýrra kísilverksmiðja sem rísa í Helguvík. Raflínunni er ætlað að liggja um fjölmörg eignarlönd á Reykjanesi.

Landeigendur telja það fara gegn ákvæði í stjórnarskrá og meðalhófsreglu stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar að veita Landsneti yfirráð yfir landi þeirra.

Hæstiréttur dæmdi í maí í fyrra að Landsnet mætti ekki hefja framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 á landi á Vatnsleysuströnd, sem fyrirtækið hafði fengið yfirráð yfir.

Þann 20. apríl verður úr því skorið í Hæstarétti hvort ákvörðun innanríkisráðuneytisins standi, um að veita Landsneti heimild til yfirráða á þeim jörðum sem línunni er ætlað að liggja um.