Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hafið á að tala í samtímann en tekst það ekki

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - Þjóðleikhúsið

Hafið á að tala í samtímann en tekst það ekki

09.01.2018 - 09:24

Höfundar

„Verkið fjallar í grunninn um hvaða áhrif kvótakerfið hafði þegar það var sett á og sú gagnrýni á raun enn við í dag, hvernig kvótakerfið tekur sjálfstæðið af einstökum sjómönnum og færir auðinn í hendur fárra.“ Guðrún Baldvinsdóttir rýnir í Hafið.

Guðrún Baldvinsdóttir skrifar: 

Í tilefni 70 ára afmælis Ólafs Hauks Símonarsonar setur Þjóðleikhúsið á svið eitt af hans frægustu verkum, Hafið, í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar.  Verkið er jólasýning ársins og var frumsýnt annan dag jóla.

Verkið var fyrst sett á svið árið 1992 og naut þá mikilla vinsælda. Einnig var unnin kvikmynd upp úr verkinu tíu árum síðar í leikstjórn Baltasar Kormáks. Í þessari nýju uppfærslu hafa einhverjar breytingar verið gerðar, persónugalleríið minnkað og verkið hefur verið fært inn í samtíma okkar, þó ekki beri mikið á því.  Þröstur Leó Gunnarsson fer með aðalhlutverk Þórðar útgerðareiganda og Elva Ósk Ólafsdóttir leikur eiginkonu hans.

Hafið gerist í sjávarplássi þar sem þeir fiska sem róa og þeir sem fiska ekki eru ekki til. Útgerðareigandinn Þórður er kominn yfir miðjan aldur og neyðist til að huga að framtíð fyrirtækisins sökum veikinda. Eiginkona hans er einnig áfjáð í að komast á mölina og flytja í þjónustuíbúð sem bíður þeirra þar. Þórður boðar því börnin sín þrjú heim í plássið yfir áramótin til að ræða breytingarnar en þegar öllum er stefnt saman verða árekstrar sem ýfa upp gömul sár milli fjölskyldumeðlimanna. Á meðan er fóstursonurinn Bergur úti á sjó og fetar þannig í fótspor gamla mannsins.

Verkið fjallar í grunninn um hvaða áhrif kvótakerfið hafði þegar það var sett á og sú gagnrýni á raun enn við í dag, hvernig kvótakerfið tekur sjálfstæðið af einstökum sjómönnum og færir auðinn í hendur fárra. Það er áhugavert að setja verkið í samhengi nútímans og huga að  hvaða áhrif kerfið hefur haft þjóðina á síðustu 25 árum.  Fyrst og fremst er þetta þó fjölskyldusaga og mannlegar tilfinningar ráða ríkjum; græðgi, öfund, ástir og hatur.

Leikritið gerist allt á rúmum sólarhring en það er í raun ótrúlegt hversu mörgu fjölskyldunni  nær að koma upp á yfirborðið á þeim stutta tíma. Stöðug átök einkenna hverja einustu senu og hlaðið er á gömul leyndarmál sem koma upp.

Systkinin virðast öll eiga að endurspegla sama viðhorfið í nýrri kynslóð Íslendinga, að fiskurinn og hafið skipti þau engu máli lengur en þau eigi samt sem áður rétt á þeim auði sem hann hefur gefið þeim. Útgerðarmaðurinn stendur einn á móti þeim, reyndar með fóstursoninn sér við hlið sem ekki hefur hagnast á sjónum en ber hreina ást til sjómennskunnar.

Systkinin þrjú, þau Ragnheiður, Haraldur og Ágúst hafa öll snúið sér að öðru, Ragnheiður og maðurinn hennar reka kvikmyndafyrirtæki og Haraldur sér um rekstur Ísfisks og situr við bókhaldið án þess að vita haus né sporð á sjómennsku. Ágúst býr í Berlín og segist leggja stund á nám þar, þótt annað komi að vísu í ljós. Mikið púður er lagt í að sýna áhorfendum hversu ómerkilegir þessir einstaklingar eru, á meðan faðir þeirra virðist eiga að vera djörfungin uppmáluð.

Ólafur Haukur sagði í viðtali við Árna Ibsen árið 1992 þegar verkið var frumsýnt í fyrsta skipti að það sem ætti sér stað núna væri að fyrsta kynslóð Íslendinga væru að vaxa úr grasi sem aldrei hefðu unnið í frumgreinum samfélagsins, á sjó eða í búskap. Ætli ég sé ekki sjálf af þessari blessuðu kynslóð, sem virðist stefna til glötunar eins og systkinahópurinn. Það var þó fátt sem hægt var að spegla sig í þessu fólki enda virkilega ómerkilegir einstaklingar og frekar ósannfærandi sem slík. Þá er óvíst hvort hafi spilað stærra hlutverk, leiktextinn eða leikstjórnin. Togstreitan náði að minnsta kosti ekki neinni dýpt og erfitt var að finna til samúðar með persónunum.

Það er þó margt vel gert í þessari jólauppfærslu Þjóðleikhússins, þótt verkið sjálft hafi ekki höfðað til mín, og mun það sennilega bara batna eftir nokkrar sýningar í viðbót. Leikmyndin var haganlega unnin með stofu fjölskyldunnar í forgrunni þar sem flestar senurnar áttu sér stað. Yfir henni héngu stórir flekar þar sem hafið sást hvítfissandi og minnti þannig á stöðuga nálægð þjóðarinnar við líftaugina sjálfa.

Samtölin milli leikaranna eiga  kannski aðeins eftir að slípast, en það getur líka alveg hafa verið örlítill frumsýningarskjálfti sem á eftir að renna af leikurunum. Þá stóðu helst uppúr þau Sólveig Arnarsdóttir og Snorri Engilbertsson í hlutverkum hjónanna Ragnheiðar og Guðmundar. Guðrún S. Gísladóttir var einnig óborganleg sem öldruð móðir Þórðar, þótt lítið hafi sést í hana fyrir sænginni sem lá yfir henni meirihlutann af sýningunni.

Oddur Júlíusson var einnig flottur í hlutverki Gústa, reiða yngri bróðurins, og sýndi mikinn kraft sem hann hefur kannski ekki fengið að sýna hingað til. Það sama var því miður ekki hægt að segja um Snæfríði Ingvarsdóttur í hlutverki stjúpdótturinnar Maríu, en hlutverkið bauð kannski ekki endilega upp á mikla leiksigra.

Semsagt, í stuttu máli. Hér er á ferð mikið fjölskyldudrama sem á að tala inn í þjóðarsál samtímans, hvort sem sá samtími var fyrir 25 árum eða nú í dag. Það tekst því miður ekki alveg í þessari uppfærslu en hægt er hafa gaman að sýningunni þrátt fyrir það. Ekta drama sem hreyfir kannski ekki við manni en fær mann til að gleyma sér í rúmar tvær klukkustundir.